Orðlaus og agndofa af handverki heimafólks

 „Með þessi móti finnst okkur við ekki eingöngu hafa heimsótt Bali og farið heim, heldur heimsóttum við staðinn og tókum part af honum með okkur heim,“ segir Linda Sæberg sem selur handunnar vörur frá Bali á vefsíðu sinni Unalome.


Linda dvaldi rúma fjóra mánuði ásamt fjölskyldu sinni á Bali í fyrra. „Ég kolféll fyrir Bali og staðurinn á stóran stað í hjörtum okkar og við tölum ennþá um Bali sem hitt heima,“ segir Linda.

Linda segist hafa verið bæði orðlaus og agndofa af handverki heimafólks, en hún selur meðal annars hnýtt vegg- og blómahengi og útskornar kúpur af kúm og buffaloum á síðunni.

„Þau vinna eftir aðferðum sem hafa gengið í erfðir og þróast út í lítil fjölskyldufyrirtæki, en okkur langaði að deilda þessari fegurð og koma með hana hingað heim,“ segir Linda, sem og þau gerðu með opnun Unalome.

Stórfjölskyldan vinna verkefnin saman
„Á Balí er mikil fátækt, þó svo að heimafólk myndi seint skilgreina sig sem fátækt. Þörfin er önnur hjá þeim og eru þau undantekningarlaust hamingjusöm með það sem þau eiga, þótt lítið sé. Við tókum strax ákvörðun að fara ekki í samskipti við stórar verksmiðjur, heldur vildum persónuleg viðskipti til fjölskyldu sem gæti notið góðs af því og fengi peningana milliliðalaust. Við kynntumst tveimur litlum fjölskyldum sem við gerðum viðskiptasamning við.“

Linda segir fjölskyldur á Bali verja miklum tíma saman. „Fjölskyldurnar hittast að loknum hefðbundnum vinnudegi og vinna saman þessar vörur og amman sér um að elda matinn fyrir alla. Vörurnar eru svo venjulega seldar á litlum básum til ferðamanna.“

Upphæðin nam rúmum árslaunum fjölskyldunnar
Linda segir verkefnið skipta sig miklu máli. „Eftir að við sáum hversu mikið þetta fólk vinnur og fyrir hve litla peninga vildum við gera allt sem í okkar valdi stæði til þess að hjálpa og styrkja okkar vinafjölskyldur. Þó svo að við séum alls ekki efnað fólk á Íslandi þá vorum við það úti og þarna sáum við tækifæri til hjálpa til og einnig flytja þennan dásamlega varning til Íslands.

Við pöntuðum stóra sendingu sem þau unnu áður en við fórum heim. Þau urðu alveg orðlaus, en sú upphæð sem við borguðum þeim eru rúmlega árslaunin þeirra og ég veit ekki hve miklar þakkir og knús við fengum frá þeim þegar við lögðum inn pöntunina. Þau sögðu okkur að þetta myndi hjálpa til við framhaldsmenntun barna þeirra, en á Bali eru dæturnar heima þar til þær gifta sig.“

Unalome merkir lífsleið
Aðspurð af hverju verslunin heiti Unalome segir Linda; „Ég féll fyrir þessu orði fyrir nokkrum árum síðan. Unalome er í raun litið merki í Búdda/jógaheiminum sem táknar lífsleiðina þína, leitina þína og leið að uppljómun. Spírallinn táknar erfiðleika þína í lífinu og beina línan á toppnum táknar að þú hafir fundið þína leið. Svoleiðis leið mér i raun á Bali þar sem ég fann svo mikla ró í hjartanu og leið svo vel og því var í raun ekkert annað nafn sem kom til greina.“

Nýjar vörur á leiðinni
Linda segir vörurnar hafa fallið vel í kramið hjá landanum. „Fólk er mjög hrifið og vörurnar seljast upp frekar hratt. Við erum að gera nýja pöntun núna, bæði á því sem við höfum verið með en einnig eigum við von á nýjum vörum fyrir sumarið sem vonandi innihalda bæði hengirúm og hengistóla.“

Unalome Linda 1200

kúpa2

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.