Orkumálinn 2024

Námsgögn: Vilja tala um þarfalista frekar en innkaupalista

Allur gangur er á því hvaða fyrirkomulag austfirskir skólar nota varðandi námsgögn. Kostnaður nemenda vegna kaupa á námsgögnum hefur verið nokkuð til umræðu síðustu vikur í aðdraganda þess að grunnskólar landsins hefja göngu sína.


Lög um grunnskóla segja að óheimilt sé að krefja nemendur um greiðslu fyrir nokkuð sem skylt sé að nota í námi en hins vegar segir í sömu lögum að ekki sé skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír. Ekki eru allir sammála um hvernig beri að túlka þessi ákvæði.

Þrettán grunnskólar eru starfandi á Austurlandi en rúmur helmingur austfirskra skólastjóra svaraði fyrirspurn Austurfréttar um fyrirkomulag innkaupa á nauðsynlegum námsgögnum.

Í Grunnskóla Borgarfjarðar verður tekin upp sú nýbreytni að engin kostnaður falli á foreldra, hvorki vegna mötuneytis eða skólagjalda, en að sögn Maríu Ásmundsdóttur Shanko eru nemendur beðnir um að koma með þau námsgögn sem þeir eiga frá síðasta skólaári. „Börnin eru beðin um að gramsa eftir pennaveski, möppu, trélitum og öðru sem þau gætu enn átt frá síðasta ári,“ segir María.

Aðalbjörn Björnsson, skólastjóri Vopnafjarðarskóla, segist ekki telja að innkaup þeirra námsgagna sem sett eru fyrir á innkaupalistum íþyngi foreldrum. Sama skipulag hefur verið við líði í Vopnafjarðarskóla mörg undanfarin ár þar sem nemendum eru sett fyrir kaup á stílabókum og skrifföngum.

Í Egilsstaðaskóla hefur verið lögð á hersla á að halda þeim námsgögnum sem nemendur þurfa að koma með í skólann í lágmarki segir Ruth Magnúsdóttir, skólastjóri. Hún segir það hafa verið til umræðu að skólinn leggi nemendum til meira af námsgögnum. „Skólinn hefur þá stefnu að draga úr þeim námsgögnum sem nemendur þurfa að koma með í skrefum. Skólinn leggur nú til liti í fjóra yngstu árganga, lím og yddara að auki í þrjá yngstu árgangana,“ segir Ruth.

Á Reyðarfirði hefur sá háttur verið hafður á síðan 2014 að skólinn kaupir námsgögn fyrir 1. - 7. bekk en foreldrar greiða fyrir þá þjónustu. Nemendur í 8. - 10. bekk kaupa námsgögn sjálf. Ásta Ásgeirsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Reyðarfjarðar, segir þetta hafa gefist vel. „Skólinn hefur ekki útvegað námsgögn fyrir nemendur á annan hátt en gegn gjaldi en það hefur oft verið rætt í okkar hópi að hvort hægt væri að finna leiðir til að námsgögn nemenda verði án endurgjalds fyrir fjölskyldurnar,“ segir Ásta.

Sami háttur verið hafður á Fáskrúðsfirði, þar sem foreldrum barna á yngsta stigi við skólann er boðið uppá að greiða 3500 kr. skólanum fyrir að útvega námsgögn til persónulegra nota. Eygló Aðalsteinsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar segir innkaupalista fyrir nemendur á Mið- og Unglingastigi skólans ekki hafi ekki verið upp á háar upphæðir. Undarfarin ár hafi þeir frekar verið kallaðir þarfalistar þar sem ítrekað sé að nota megi það sem þegar er til. „Við ákváðum að grisja hann eitthvað, t.d. ekki biðja um teikniblokkir og áherslutúss og ítreka að aðeins eigi að endurnýja skemmdar möppur. Við teljum að nemendur ættu ekki að þurfa að fara fram yfir 5000 kr,“ segir Eygló.

Einar Már Sigurðarson, skólastjóri Nesskóla, tekur í sama streng og Eygló og segist frekar vilja tala um þarfalista en innkaupalista. Hann segir breytingar og möguleg sameiginleg innkaup til skoðunar í Nesskóla.

Stöðvarfjarðarskóli gefur ekki út innkaupalista að svo stöddu. En á heimasíðu skólans segir að listinn minnki ár frá ári og reynt sé að halda þeim kostnaði niðri eins og hægt er, þar mun skólinn að einhverju leyti taka þátt.

Innkaupalistar hafa verið gefnir út á heimasíðum margra skólanna og eru þeir misjafnlega umfangsmiklir.

 

(Mynd: Wikipedia)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.