„Mikill tími hefur farið í að hreinskrifa óútgefnar nótur“

Söngkonan Erla Dóra Vogler og píanóleikarinn Eva Þyri Hilmarsdóttir heiðra minningu Jórunnar Viðar í ár, en 100 ár verða liðin frá fæðingu hennar í desember. Fyrir utan að halda tónleika eru þær að safna fyrir útgáfu geisladisks á Karolinafund þar sem meðal annars má finna áður óútgefnum lög hennar.


Jórunn Viðar lést árið 2017, á sínu nítugasta og níunda aldursári. „Við höldum upp á aldarafmæli Jórunnar með margvíslegum hætti, höldum tónleika vítt og breitt innan sem utan landsteinanna og stefnum á að gefa út geisladisk þar sem meðal annars má finna áður óútgefin verk eftir hana.

Þetta er mjög metnaðarfullt verkefni hjá okkur og mikill tími hefur farið í að hreinskrifa óútgefnar nótur frá Jórunni og fara í gegnum lög sem ekki hafa verið gefin út á geisladisk áður, en við höfum verið í miklum samskiptum við Lovísu Fjeldsted, dóttir Jórunar og sellóleikara í Sinfó,“ segir Erla Dóra.

„Allt fram í andlátið var tónlistin líf hennar og yndi“
Sumarið 2015 héldu Erla Dóra og Eva Þyri vel heppnaða tónleika með verkum Jórunnar Viðar í sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar þar sem fullt var út úr dyrum. Jórunn var viðstödd tónleikana ásamt dóttur sinni, Lovísu og lýsti yfir mikilli ánægju með túlkun þeirra og flutning.

„Í nokkur ár hefur staðið til að við Eva Þyri hljóðrituðum hluta sönglaga Jórunnar og þótti okkur vel við hæfi að gera það nú á 100 ára afmælisári hennar, en allt fram í andlátið var tónlistin líf hennar og yndi.“

Erla Dóra og Eva Þyri hlutu 500 þúsund króna styrk úr Menningarsjóði Landsbankans til útgáfu geisladisksins, en þær vonast til að ná að fullfjármagna verkefnið með áheitasöfnun á Karolinafund.

Hér má sjá Facebook-síðu fyrir verkefnið

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.