„Mér finnst skemmtilegt fólk skemmtilegt“

Pálmi Fannar Smárason á Djúpavogi, stendur nú fyrir viðburðinum Edrúlífið sjötta árið í röð á laugardaginn. Hann er í yfirheyrslu vikunnar.


„Edrúlífið hefur þróast frá því að vera nánast eingöngu forvarnartal við unglinga og foreldra þeirra, yfir í að það að allir sem hafa áhuga á áhrifaríkum reynslusögum geta mætt og hlustað á fólk sem hefur hætt að nota áfengi og lifir skemmtilegu lífi edrú. Það varð mikil fjölgun hjá okkur eftir að þetta opnaðist meira og það er alltaf stígandi í þessu hjá okkur,“ segir Pálmi Fannar, en Edrúlífið er alltaf haldið helgina sem Hammondhátíðin er á Djúpavogi.

Með augu og eyru opin allt árið
Fyrirlesarar Edrúlífsins í ár eru tónlistarmaðurinn Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra Hnetusmjör og Nanna Kristín Magnúsdóttir, leikkona, leikstjóri og handritshöfundur.

„Ég hef augu og eyru opin allt árið til að finna fólk sem er stolt af sínum edrú-lífstíl og er tilbúið að koma og deila honum með okkur á Edrúlífinu. Árni og Nanna eru glæsileg dæmi um fólk sem gengur vel og gerir allt sem þau langar, án áfengis.

Ég er ekki að predika að unglingar eigi aldrei að byrja að drekka, heldur aðeins sýna þeim fram á það að það er einn kosturinn að velja að vera edrú því það er miklu meira töff.

Ég vona bara að þetta hjálpi kannski einn daginn einhverjum sem lendir í veseni með sína drykkju, að það engin skömm í því að leita sér aðstoðar ef stjórnin er farin. Svo vaknar þú aldrei þunnur aftur sem er stór kostur.“


Fullt nafn: Pálmi Fannar Smárason.

Aldur: 37.

Starf: Sjómaður.

Maki: Unnur Malmquist Jónsdóttir.

Börn: Hekla, Óðinn, Rökkvi og Þorri.

Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi? Að forðast harðlífi.

Hvaða teiknimyndapersónu myndirðu vilja eiga sem vin? Heppna gaurinn í Andrés önd.

Hvað ættu allir að prófa að minnsta kosti einu sinni í lífinu? Tvöfaldan Jómba Special á Brekkunni hjá Ástu og Rósmarý.

Hvaða ósið hefur þér reynst erfiðast að hætta? Að reykja vindla.

Hverju laugstu síðast? Í síðasta svari. Ég hef aldrei reynt að hætta því.

Yfir hverju getur þú alltaf hlegið? Þegar einhverjum bregður.

Hver er þinn helsti kostur? Ég get verið mjög ákveðinn.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég er stundum of ákveðinn.

Hvað ætti ævisagan þín að heita? Sá sem skrifar hana má ráða því. Ég ætla að vona að ég verði dauður þegar hún kemur út.

Hvaða bíómynd hefurðu séð oftast? Ég og Oddur í Hvammi horfðum helvíti oft á Blade með Wesley Snipes eina sláturvertíðina.

Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur? Svartar gallabuxum með tveimur hvítum röndum á hliðinni.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ég væri til í að hitta Ingólf Arnarsson og segja honum að hann hafi ekki verið fyrstur – það hafi verið búið að vera byggð í Stöðvarfirði í tæp hundrað ár. Svekk!

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Mér finnst skemmtilegt fólk skemmtilegt.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Hengja upp á snúru. Því að Unnur segir að ég kunni ekki að gera það rétt. En ég get ekki séð að það skipti máli hvar klemmurnar fara svo lengi sem að þetta er þurrt daginn eftir.

Draumastaður í heiminum? Okkur líður vel á Tenerife.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Bagatello-lautin á Stöðvarfirði.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Ég væri til í að vita alltaf betur en allir aðrir hvar mesta fiskiríð er.

Hvað er framundan um helgina? Fullt af góðum tónleikum á Hammondhátíðinni og líka Edrúlífið á laugardaginn klukkan 14:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.