„Mér finnst kleinur hluti af sjálfsmynd Íslendinga“

„Það liggja leyniuppskriftir um allt, eitthvað sem einhver amma, afi eða mamma geymdi bara í sínum kolli,“ segir Ingunn Þráinsdóttir á Egilsstöðum, sem biðlar nú til þjóðarinnar að grafa upp gamlar kleinuuppskrifti og deila með henni.

Ingunn er samskiptahönnuður og eigandi hönnunarfyrirtækisins MOSA, þar sem hún selur sína eigin hönnun. MOSI auglýsir nú eftir íslenskum kleinuuppskriftum hvaðanæva að af landinu til söfnunar í kleinuuppskriftabók.

„Eins og flestir Íslendingar þá elska ég kleinur, hver elskar ekki góða nýsteikta kleinu? Ég á klassískar góðar minningar um kleinur síðan ég var krakki – kleinurnar hennar ömmu, eða þegar við fórum í kvöldkaffi hjá frænku og fengum kleinur. 

Ég hef gengið með þá hugmynd í maganum í nokkur ár að reyna að taka saman allskonar kleinuuppskriftir, allsstaðar að af landinu, í eina bók. Það erfiðasta við svona verkefni er örugglega að fá konur og karla til að miðla uppskriftunum áfram til mín, en mig langar einnig að ná til þeirra sem eru utan netheima, til þessarar yndislegu kynskóðar okkar Íslendinga sem gat gert mat úr öllu og geymdi ekkert endilega niðurskrifaðar uppskriftir heldur mundi þær bara."

Úútgáfudagur er nú ekki ákveðinn. „Ég hugsa að þetta gæti tekið dálítinn tíma þar sem ég er að reyna að ná til sem flestra og fólks af öllu landinu. Það tekur tíma að koma hugmyndinni á framfæri og fá viðbrögð til baka. Ég ætla að leyfa þessu að taka tíma, það er allt í lagi.“


Fyrsta kleinujárnið var úr hvalbeini
Steikir Ingunn sjálf kleinur? „Þrátt fyrir að vera 1000% áhugamanneskja um kleinur hef ég aldrei steikt þær sjálf! En ég hef tekið þátt í því og fundist það mjög skemmtilegt. Það er gaman að skera deigið út í tígla með kleinujárni og snúa svo upp á til að fá slaufulaga formið og smella þeim svo í feitina. Slaufulaga formið er ekki bara fyrir útlitið heldur er það til að tryggja að þær verði ekki hráar í miðjunni, þetta er allt útpælt, svona svipað og holan í kleinuhringnum.

Kleinujárn eru svo einmitt eitthvað alveg sérstakt verkfæri og nauðsynlegt, það er svo flott að sjá kleinujárnskantana á steiktum kleinum, þá veit maður að þær eru alvöru; úr íslensku eldhúsi. Fyrsta kleinujárnið var sennilega smíðað úr hvalbeini, hversu töff er það?

Mér finnst kleinur hluti af sjálfsmynd Íslendinga, hluti af þjóðararfinum okkar, svona svipað og laufabrauð og hangikjöt. Eitthvað æðislega íslenskt þó svo þær séu alls ekki íslensk uppfinning. Þær koma líklegast frá Þýskalandi, Svíþjóð og Danmörku hingað til Íslands, þýska nafnið á þeim er „klein“ sem þýðir lítill, við Íslendingar breytum því svo í kleinur. Það er ódýrt að framleiða kleinur, hráefnið er auðfinnanlegt og margbreytilegt, eins og uppskriftirnar eru margar.“

Kleinur eru ekki bara kleinur
En eru kleinur ekki bara kleinur, allar eins? „Nei þær eru nefnilega alls ekki allar eins. Í kleinum eru allskonar hráefni svo sem, hveiti, mjöl, skyr, súrmjólk, mjólk, smjörlíki, sykur, vanilludropar, kardimommudropar, egg, lyftiduft og fleira. Þetta er einmitt það sem mig langar að rannsaka og finna fyrir kleinuuppskriftabókina.

Hagsýnar húsmæður nýttu ýmislegt til að búa til kleinur, enda alltaf gott að eiga eitthvað með kaffinu fyrir heimilisfólkið þó svo peningar væru af skornum skammti.

Í dag er vinsælt að selja kleinur sem fjáröflun, ástæðan er auðvitað sú að þær seljast alltaf gríðarlega vel. Það er eitthvað við lögun, bragð og áferð kleinunnar sem Íslendingar elska, þægilegt nesti og auðvelt fyrir börn að borða.“

Nánari upplýsingar eru veittar gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Kleinumynd MOSI

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.