„Matartúrismi er í sókn“

„Okkar markmið er að framleiða afurðir frá okkar eigin búum með það að leiðarljósi að vera sjálfbær og heilnæm í framleiðslunni,“ segir Guðný Harðardóttir, bóndi á Gilsárstekk, framkvæmdastjóri Breiðdalsbita, en Að austan á N4 heimsótti fyrirtækið í haust. 

 

 

Bændur á tveimur bæjum í Norðurdal Breiðdals standa að baki afurðum sem eru að koma á markað undir merkjum Breiðdalsbita. Bændurnir vildu kanna möguleika á frekari úrvinnslu á þeirra hráefni.

Hugmyndin kviknaði með átaki Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, í Breiðdalshreppi. Íbúum var þar veittur stuðningur til að þróa atvinnuhugmyndir sínar. Arnaldur Sigurðsson, bóndi á Hlíðarenda, vildi kanna möguleikana á að koma upp matarsmiðju, eða eldhúsi, þar sem áhugasamir gætu komið með afurðir sínar og unnið. „Hugmyndin var að koma upp aðstöðu fyrir okkur sjálf til að vinna afurðir af okkar eigin búum,“ segir hann.

Tvær gerðir af kæfu

Með stuðningi Byggðastofnunar var unnin viðskiptaáætlun sem sýndi fram á að í slíku eldhúsi yrði alltaf að vera föst framleiðsla til staðar. Þá var haldið áfram og Breiðdalsbiti varð til sem hefur sett tvær tegundir af kæfum á markað. „Fjallakæfan er hefðbundin, þar leyfum við kjötbragðinu að njóta sín. Skógarkæfan er krydduð með birki og blóðbergi héðan af svæðinu,“ segir Guðný.


Kæfan er seld í Kaupfélaginu á Breiðdalsvík og Frú Laugu í Reykjavík, en samningar standa yfir við fleiri verslanir. „Við erum með fullt af hugmyndum. Við ætlum okkur ekki að komast í stórmarkaðina heldur framleiða hágæða svæðisbundnar vörur. Matartúrismi er í sókn og menn gætu verið tilbúnir að koma og smakka þessar hágæðaafurðir og borga fyrir það góðan pening,“ útskýrir Arnaldur.


Leita í hreina matvöru

Verið er að koma upp aðstöðu á Gilsárstekk og er hugmyndin að fleiri áhugasamir framleiðendur geti nýtt hana. Og Guðný er sannfærð um að náttúran í Breiðdal geri gæfumuninn fyrir afurðirnar. „Kjötið er á við villibráð, það sem við nýtum kemur beint af fjalli. Við notum engin aukefni eða rotvarnarefni. Hráefnið er okkur kært og við viljum koma lamba- og kindakjötinu á þann stall sem það á heima á.“


Arnaldur er sannfærður um að eftirspurn sé eftir afurðum sem þessum á markaðinum. „Ég held að þetta sé framtíðin. Mönnum hrýs hugur við þessu óhemju magni auka- og rotvarnarefna sem eru í öllum vörum og sækja í að komast sem næst upprunanum í framleiðsluferlinu þegar þeir velja sér matvöru.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.