Orkumálinn 2024

„Margir sem halda að hún sé amma mín“

„Það hefur auðvitað verið ákveðin pressa yfir þessu öllu saman, þetta eru svo stórir skór að fylla í,“ segir Norðfirðingurinn Katrín Halldóra Sigurðardóttir, sem hefur heldur betur slegið í gegn með túlkun sinni á söngkonuninni Elly Vilhjálms í leiksýningunni Elly í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar sem frumsýnd var í Borgarleikhúsinu um liðna helgi.



Katrín Halldóra Sigurðardóttir útskrifaðist frá Leikarabraut við Listaháskóla Íslands vorið 2015. Hún stundaði þar áður söngnám við Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn og einnig á Jazz- og rokkbraut við Tónlistarskóla FÍH.

Katrín hóf störf hjá Þjóðleikhúsinu strax eftir útskrift úr leikaranáminu. Lék hún þá Henríettu í Í hjarta Hróa Hattar og Margréti í Um það bil og var tilnefnd til Grímuverðlaunanna sem leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í báðum verkum. Í vetur hefur hún leikið Dollí í Djöflaeyjunni, Bjönku í Óþelló og jólaálfinn Reyndar í Leitinni að jólunum. Katrín er einn af stofnendum Improv Ísland og hefur komið fram á fjölmörgum sýningum þeirra í Þjóðleikhúskjallaranum auk þess sem hún er kennari á spunanámskeiðum.


Æfingarferlið skemmtilegt en krefjandi

Katrín segir frá tilurð þess að hún fékk tækifæri til þess að fara með þetta stóra hlutverk; „Ég vann sjálf litla hálftímalanga sýningu um Elly Vilhjálms á lokaári mínu í leiklistarnáminu. Gísli Örn Garðason leikari og leikstjóri sem kom á sýninguna og bauð mér eftir það hlutverkið í þessum stóra söngleik um hennar ævi sem hann var að fara setja upp. Þetta var fyrir tæpum tveimur árum, þannig að ég hef beðið töluvert eftir þessu,“ segir Katrín.

Kartín segir æfingarferlið hafa gengið vel en verið virkilega krefjandi. „Þetta er langstærsta hlutverk sem ég hef fengið eftir útskrift en það er búið að vera ótrúlega skemmtilegt að koma þessu öllu saman. Við höfum ná að gera ákaflega fallega sýningu sem ég er mjög ánægð með og stolt af því að fá að segja sögu þessarar mögnuðu konu. Fyrstu dagarnir eftir frumsýningu hafa verið aðeins þreyttari en aðrir dagar, það er svo mikil keyrsla fram að frumsyningu, langir dagar og unnið öll kvöld. Ég hef reynt að hvíla sig vel inn á milli, sofa eins lengi og ég mögulega get, það er svo gott fyrir líkamann að ná upp orkunni fyrir komandi sýningartörn.“


Hefur hlotið góða dóma

Katrín hefur hlotið afar góða dóma fyrir frammistöðu sína og sem dæmi skrifar Silja Björk Huldudóttir þetta um sýninguna í leikdómi sínum; „Rýnir á hreinlega ekki nógu sterkt orð til að lýsa magnaðri túlkun Katrínar á Elly, annað en að hér er augljóst að stjarna er fædd. Ekki nóg með að Katrín líkist fyrirmyndinni í útliti heldur býr hún yfir einstakri útgeislun og stórkostlegri rödd sem lætur engan ósnortinn. Katrín syngur ekki aðeins lögin sem Elly gerði fræg heldur túlkar hana í gegnum tónlistina og fyrir vikið verður tjáningin einstök og sönn. Silkimjúk, hljómfögur og tær söngrödd Katrínar gefur Elly ekkert eftir.“

Kartrín segir sýninguna greinilega tala til fólks og það sé vissulega skemmtilegt að fá svo jákvæð viðbrögð frá gagnrýnendum og áhorfendum.


Þykir sláandi lík Elly á allan hátt

Söngkonan Elly býr í hjörtum flestra landsmanna. Var aldrei erfitt að hugsa til þess að bera svo stórt hlutverk eins og að segja sögu einnar ástsælustu söngkonu þjóðarinnar?

En það er ákveðin ábyrgð sem felst í því að hafa sagt „já“ við því að leika hana. Ég ætlaði mér alltaf að gera það af öllu mínu hjarta og ég lagði allt í þetta hlutverk og vanda til verks og geri eins vel og ég mögulega get við að skila henni frá mér til áhorfenda. Sagan hennar Ellyar er mögnuð, hún hreyfði til dæmist mikið við mér þegar ég heyrði hana fyrst og það er margt sem kemur fólki skemmtilega á óvart við hana sem persónu. Mér finnst gaman að fara í þetta ferðalag með áhorfendum, segja söguna á bakvið lögin sem við elskum öll.“

Katrín þykir ekki aðeins ná að túlka Elly vel með túlkun og söng, heldur þykir hún sláandi lík henni í útliti. „Já, það er rétt – og margir sem halda að hún sé amma mín. En það er reyndar ekki rétt, en við líkjumst að mörgu leiti og eigum margt sameiginlegt og er þetta er bara skemmtilegur bónus við verkefnið“

Ljósmynd: Grímur Bjarnason.

Hér að neðan má sjá Katrínu flytja lagið Allt mitt líf úr sýningunni í þættinum Vikan með Gísla Marteini á RÚV. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.