Lækning við krabbameini felst ekki bara í útgáfu lyfseðla

Krabbameinssjúklingum á Austurlandi stendur til boða endurhæfing á heimaslóð í samstarfi við Starfsendurhæfingu Austurlands. Formaður félagsins segir skipta miklu máli að veita sjúklingum og aðstandendum þeirra félagslegan stuðning.


„Það er alltaf hætta á að sá sem greinist með krabbamein einangrist félagslega og það er stórhættulegt. Það skiptir höfuðmáli að halda sálinni í góðu jafnvægi og það fæst fram með félagslegu samneyti.

Sannleikurinn er sá að lækning við krabbameini felst ekki bara í útgáfu lyfseðla heldur líka félagslegu samneyti. Hjá StarfA er boðið upp á slökun, jóga, hreyfingu, fræðslu og fleira. Með þessu samkomulagi okkar hafa skjólstæðingar okkar aðgang að öllu því sem StarfA býður upp á, þeim að kostnaðarlausu.“

Þetta segir Alfreð Steinar Rafnsson, formaður Krabbameinsfélags Austurlands sem nær yfir svæðið norðan Fagradals. Auk þess sem á undan er talið má bæta við að eftir hádegi á þriðjudögum er hægt að leita til ráðgjafa í húsnæði StarfA á annarri hæð í Miðvangi 1 á Egilsstöðum.

Samkomulagið hefur verið í gildi í ár og segir Alfreð það hafa stóraukið þjónustu félagsins sem áður hafi aðallega verið í að taka þátt í kostnaðarhlutdeild sjúklinga sem voru í meðferð annars staðar. „Okkur fannst það ekki nóg.“

Þjónustan er ekki eingöngu ætluð fyrir sjúklingana sjálfa. „Það er alltaf áfall að greinast með krabbamein og það fær ekki síður á aðstandendurna. Þeir hafa líka aðgang að þjónustu StarfA“

Alfreð Steinar segir að hann vildi gjarnan vilja sjá fleiri nýta sér þjónustuna. Hann segir vanta upp á að bæði hún og réttindi séu betur kynnt fyrir sjúklingum. Vanda þurfi til þess verks því þeir séu ekki alltaf í ástandi til að meðtaka upplýsingar.

„Við höfum nýlegt dæmi um einstakling sem var búinn að greiða á fimmta hundrað þúsund í ferðakostnað og uppihald vegna meðferðar. Hann kom til okkar og spurði hvort það væri möguleiki á að fá eitthvað endurgreitt.

Við tókum saman alla pappírana og fórum með til Tryggingastofnunar og það stóð heima að hann átti rétt á fullri endurgreiðslu. Við þurftum reyndar að ganga á eftir því, til dæmis fá vottorð frá Landsspítalanum um komu til læknis þótt sjúklingurinn hefði verið fluttur suður með sjúkraflugi.

En þetta er dæmi um að sjúklingur annað hvort var ekki í ástandi til að meðtaka upplýsingarnar eða hann var ekki upplýstur um réttindi sín.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.