Krossar fingur en skoðar ekki veðurspána

„Við leggjum gífurlega metnað í það sem við erum að gera og hátíðin hefur stækkað heilmikið frá því í fyrra,“ segir Sesselja Jónasardóttir, framleiðslustjóri hátíðarinnar List í ljósi á Seyðisfirði. Hátíðin verður sett á föstudaginn en hliðardagskrá hennar, „Flat Earth Film Festival“, hefst í dag.



„Hátíðin samanstendur af samfélagsdrifnum og fjölskylduvænum listviðburðum sem fara fram utandyra. Hátíðin umbreytir Seyðisfjarðarbæ í ljóslifandi kraumandi suðupott vel skipulagðra listviðburða, innlendra sem og erlendra listamanna. Fjölbreytni er í fyrirrúmi þar sem fyrirfinnast innsetningar, myndvörpun, gjörningar og upplifun á stórum skala,“ segir Sesselja.

List í ljósi verður sett á föstudaginn klukkan 19:00 en verkefnið „Flat Earth Film Festival“ stendur alla vikuna, en það samastendur af röð fjölbreyttra viðburða.

List í ljósi 2016

 

Mikill heiður og pepp að vera tilnefnd til Eyrarrósarinnar

Er þetta annað árið í röð sem List í ljósi er haldin á Seyðisfirði. „Þetta hófst allt með því að við Celia (Harrison) fórum að tala saman, en hún er frá Nýja Sjálandi og á þar hlut í sambærilegri hátíð. Með því að sameina hugmyndir okkar og krafta varð List í ljósi til,“ segir Sesselja.

List í ljósi var tilnefnd til Eyrarrósarinnar fyrir skemmstu, en það var þungarokkshátíðin Eistnaflug á Norðfirði sem hana hlaut.

„Það var gríðarlegur heiður og mikið pepp að hjóta þessa tilnefningu og Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Eyrarrósarinnar, sagði mér að það væri mjög óalgengt að svo ung hátíð væri tilnefnd, þannig að við erum ótrúlega ánægðar.“


Svolítil geðveiki að halda hátíð utandyra að vetrarlagi

Sesselja býst við allt að þúsund gestum á hátíðina. „Ég hef samt ekki þorað að skoða veðurspána og ætla ekki að gera það, heldur bara krossa fingur og vona það besta. Það er auðvitað svolítið geðveiki að halda hátíð utandyra á þessum árstíma, en á sama tíma svo mikil áskorun og ferlega spennandi. Ég vil hvetja alla sem geta til að mæta, aðgangur er ókeypis á alla viðburði og þetta er algert nammi fyrir augun.“

Meðfram dagskránni verða fjölbreyttar uppákomur í gangi um allan bæ út vikuna. Hér er hægt að sjá dagskrána.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.