Kennt að sauma öskupoka

Minjasafn Austurlands, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu í gær og fyrradag fyrir öskupokasmiðju í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Ungviðið kom þar saman til að sauma öskupoka.


„Þetta er tilraun til að halda í þessa alíslensku hefð,“ segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafnsins.

Að hengja öskupoka á fólk er siður sem ekki finnst annars staðar en á íslensku. Til siðs var að stelpur hengdu poka með ösku á stráka en steinar voru í pokunum sem þeir hengdu á stelpurnar.

Á Vísindavefnum er bent á að snemma á 20. öld hafi pokarnir þjónað hlutverki eins konar ástarbréfa, það er að hengja á þann sem viðkomandi hafði augastað á. Síðar breyttist það og var þá málið að hengja öskupoka á fólk og láta það ganga með hann yfir daginn.

Siðurinn hefur verið á undanhaldi síðustu ár. Ein tilgátan er að ekki sé lengur hægt að fá títuprjóna sem hægt er að beygja, en þeir gegna lykilhlutverki við að hengja poka á hrekklaust fórnarlamb. Í safnahúsinu voru í staðinn notaðar öryggisnælur.

Kristjana Björnsdóttir sat og leiðbeindi við saumaskapinn þegar Austurfrétt bar að garði en af henni lærðu þær Kristrún Lea Einarsdóttir, Ása Guðný Sigbjörnsdóttir og dótturdóttir Kristjönu, Snærós Erna Daðadóttir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.