Kennir Austfirðingum vetrarfjallamennsku: Mikilvægt að fólk þekki grunnatriðin

Jón Gauti Jónsson, einn reyndasti fjallamaður Íslands, kennir grunnatriði í vetrarfjallamennsku í Óbyggðasetri Íslands í Fljótsdal um helgina. Hann segir hugmyndina að baki námskeiðinu vera að fólk kunni að lesa aðstæður og nota þau tæki sem þurfi til að njóta náttúrunnar allt árið.


„Hugmyndin er að auka öryggi fólks í fjallgöngum að vetrarlagi. Það er fullt af litlum atriðum sem þarf að kunna. Það þarf að kynna sér ákveðin atriði eins og leiðaval með tilliti til snjóflóðahættu, bratta, kunna réttu tökin á sérútbúnaði eins og broddum og ísöxum en ekki síður hvernig eigi að fóta sig og að bera virðingu fyrir aðstæðum.“

Jón Gauti, sem er einn af reyndustu fjallamönnum Íslands, hefur gengið á fjöll í um 30 ár, leiðsagt í rúmlega 20, skrifað um útivist og verið í björgunarsveitum. Hann stendur að baki Fjallaskólanum þar sem hann kennir grunnatriðin í fjallamennsku og segist kenna námskeiðið sem hann verður með eystra um helgina nokkrum sinnum á hverju ári. „Margir fara árlega til að halda þekkingunni við.“

Hann hefur hins vegar ekki komið með það austur áður. Hann segist þar miðla bæði góðri og slæmri reynslu sem hann hafi lent í. „Ég hef gert mistök sjálfu sem urðu nærri til þess að illa fór í ferð hjá mér. Ég lærði mikið af því og fór að taka hlutina alvarlegar og að miðla til annarra af reynslu minni.“

Vetrarferðamennska hefur notið vaxandi vinsælda undanfarin ár, bæði með auknum fjölda ferðamanna en ekki síður meiri vilja fólks til að stunda útivist.

„Það eru gönguhópar um allt land á ferðinni að vetrarlagi. Það eru fleiri og fleiri sem átta sig á gildi þess að vera í heilsueflandi útivist allt árið og gera það að lífsstíl.

Það er ekki vafi að þetta er að aukast, en það má líka rifja upp orð Guðmundar frá Miðdal sem talaði um að fjallamennska væri að aukast þegar hann stofnaði Fjallamenn Íslands árið 1938.“

Í bland við kennslu Jóns Gauta verður boðið upp á sýningu á myndum frá Guðmundi og óbyggðakvöldvöku. „Ég fagnaði því mjög þegar haft var samband við mig frá Óbyggðasetrinu og boðið upp á þeirra aðstöðu og myndasýningar frá mönnum eins og Guðmundi sem ég er mjög spenntur að sjá. Hún setur þetta allt í mjög skemmtilegt samhengi og ef vel tekst til þá gæti vel orðið framhald á.“

Hann segir fólk ekki þurfa reynslu í fjallamennsku til að sækja námskeiðið. „Við getum vel þróað æfingar fyrir getu hvers og eins. Það er ekki verra að fólk hafi gengið eitthvað yfir sumarið og sé í formi en það eru engar forkröfur.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.