Jól í bolla í Verzlunarfélaginu

„Mig hefur alltaf langað, eins og flestar litlar stelpur, að verða búðarkona,“ segir Birgitta Ósk Helga sem hefur rekið Verzlunarfélagið á Egilsstöðum í rúmt ár en búðin fagnaði ársafmæli sínu í lok október og er nú farin að undirbúa aðventuna.


Verzlunarfélagið er bæði verslun og kaffihús. „Ég var alltaf með ákveðna hugmynd um hvernig ég vildi hafa þetta, ég vildi vera með vörur sem mér þættu fallegar og legg mikið á mig til að finna fallegar vörur á góðu verði en markmiðið er að einstaklingar geti komið og keypt fallegan hlut fyrir sjálfa sig, ekki bara til gjafa eins og manni er svo gjarnt. Einnig passa ég mig að vera ekki með vörur sem eru til á svæðinu, heldur bjóða upp á eitthvað nýtt,“ segir Birgitta.


„Þegar maður er svolítið kaffisjúkur og vill geta fengið gott kaffi verður maður bara að gera það sjálfur og þannig kviknaði hugmyndin að vera bæði með verslun og kaffihús og það smellur alveg saman.“


Birgitta segir viðtökurnar hafa verið alveg frábærar. „Þetta hefur farið fram úr björtustu vonum, það eru komnir fastakúnnar í kaffið. Þetta er líka orðið samastaður fyrir konur í fæðingarorlofi, þeim finnst æðislegt að koma og sitja í kaffi meðan litlu krílin leika sér saman.“

Laumuhönnuður til margra ára
Birgitta selur einnig sín eigin hálsmen í versluninni undir nafninu BÍ&BÍ. „Ég hef verið að dunda mér við að gera hálsmen og hef verið laumu-hálsmenahönnuður í mörg ár. Það tók mig bara smá tíma að þora að fara með þetta í sölu og er núna farin að selja þau í búðinni minni. Um er að ræða annars vegar koparhálsmen og hins vegar tréperluhálsmen þar sem ég lita perlurnar alveg í gegn en þau eru bæði til fyrir fullorðna og börn.“

Báðu um jól í bolla í sumar
Það styttist í að aðventan gangi í garð og Birgitta segir að búast megi við mikilli jólastemmingu í Verzlunarfélaginu allan desembermánuð. „Í fyrra bauð ég upp á „jól í bolla“ sem samanstóð af kaffi, chai-latte og kanil. Þetta vakti mikla lukku og fólk var að koma í sumar og hvísla yfir borðið að það vildi fá einn jól í bolla. Ég er því farin að hugsa hvað ég get gert fyrir jólin núna og er með ákveðnar hugmyndir um það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.