Íbúar gleðjast saman og samkennd eykst

Fyrsti dagur þorra er í dag, bóndadag. Fyrstu þorrablótin eru haldin um helgina og í mörg horn að líta fyrir þá sem eru í þorrablótsnefnd á hverjum stað. Sigrún Blöndal fer fyrir nefndinni á Egilsstöðum, en hún er einnig í yfirheyrslu vikunnar.


Sigrún segir það eðlilega vera töluverða vinnu að vera í nefnd. „Þetta er talsverð vinna, sérstaklega í janúar. Við byrjum að hittast í október í nefndinni á Egilsstöðum og förum hægt af stað en í janúar eru æfingar og vinna á hverjum degi. Að vera í forsvari fyrir nefnd snýst fyrst og fremst um að hafa yfirsýn, deila út verkefnum til allra nefndarmanna og fylgjast með að allt sem gert sem þarf.“

Hvaða máli skipta þorrablótin fyrir íbúa? „Þetta er með fjölmennustu samkomur sem haldnar eru yfir árið, bæði í sveitunum og í þéttbýlinu. Þarna hittast íbúarnir og gleðjast saman. Það er mjög dýrmætt að hafa tækifæri til þess og eykur samkennd.“

Hvað stendur uppúr í þessu ferli? „Að fá að vinna með hópi fólks sem hittist kannski takmarkað – eða aldrei við önnur tækifæri. Það er alltaf jafn frábært að upplifa hugmyndir streyma fram og sjá þær mótast og verða að umgjörð og skemmtidagskrá. Og svo er fólk svo rosalega duglegt og áhugasamt.“

Fullt nafn: Sigrún Blöndal.

Aldur: 52.

Starf: Kennari og bæjarfulltrúi.

Maki: Björn Sveinsson.

Börn: Sigurlaug, Sveinn og stjúpdæturnar Sif og Marta.

Borðar þú þorramat og ef svo er, hvað er þitt uppáhald? Ja, svona sumt. Ný sviðasulta og pungar eru mitt upáhald.

Hver er þinn helsti kostur? Ég reyni að sjá jákvæðar hliðar og tækifæri í hlutunum. Það held ég að sé kostur.

Hver er þinn helsti ókostur? Fljótfærni og óþolinmæði.

Mesta undur veraldar? Að upplifa fullskapað barn koma í heiminn.

Hvað er í töskunni þinni? Uhh, slatti. Sími, peningaveski, snyrtidót, greiða, lyklar, skóhorn, minnisbók, handáburður, gleraugnahulstur... og fleira eftir aðstæðum.

Settir þú þér áramótaheit, ef svo er, hvað? Hafði bak við eyrað að ég þyrfti að hreyfa mig meira.

Besta bók sem þú hefur lesið? Þær eru nú margar góðar. Ætli Íslandsklukka Halldórs Laxness standi ekki uppúr.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Pabbi.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Ég vildi óska að fólk sýndi meiri samkennd með náunganum. Það væri líka til bóta ef fólk gæti horft á breytingar sem tækifæri frekar en ógn. Framfarir verða við breytingar og við megum ekki óttast þær of mikið.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Hallormsstaður og Borgarfjörður eystri.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Mjólk, smjörvi, ostur.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Haustið. Litirnir í náttúrunni eru svo ótrúlega fallegir.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Kristján 4 konungur Dana á fyrri hluta 17. aldar hefur mér lengi þótt spennandi og sömuleiðis dóttir hans Leonóra Kristína sem sat í Bláturni í 22 ár.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Hreinskilni og jákvæðni.

Draumastaður í heiminum? Suður-Frakkland, nálægt Miðjarðarhafinu.

Hver eru þín helstu áhugamál? Hef ekki haft mikinn tíma síðastliðin ár til að sinna áhugamálum öðrum en sveitarstjórnarmálum.

Duldir hæfileikar? Þegar stórt er spurt! Ég er mjög flink að búa til málfræðipróf.

Mesta afrek? Að fæða börnin mín tvö – og án deyfingar.

Verður fast skotið á blótinu í ár? Þorrablótsnefndin hefur verið sammála um að grín felst ekki í að gera lítið úr náunganum. Það verður vissulega skotið en mér finnst að atriðin séu frekar á góðlegum nótum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.