Hyggst ekki fylgja eftir gömlum áskorunum um forsetaframboð: Komið alltof mikið af frambjóðendum

Eskfirðingurinn Guðmundur Ragnar Kristjánsson hyggur ekki á framboð til forseta Íslands að þessu sinni. Undirskriftum honum til stuðnings var safnað á staðnum fyrir átta árum en hann var þá ekki kominn með kjörgengi.


„Ég var ekki kominn með aldur þá en ég hef ekkert verið að spá í þetta,“ segir Guðmundur sem var 33ja ára þegar undirskriftunum var safnað.

Samkvæmt lögum mega þeir sem eru yngri en 35 ára ekki bjóða sig fram til forseta. Þrátt fyrir að hafa nú náð tilskyldum aldri hyggst Guðmundur Ragnar ekki taka slaginn í ár. „Nei, ég er ekkert að spá í því.“

Í samtali við vefútgáfu Austurgluggans árið 2008 sakaði Guðmundur Ragnar „svokallaða vini sína“ um að vera að hrekkja hann og hét því að ná fram hefndum. Lítið hefur heyrst af stuðningsyfirlýsingum við hann núna. „Nei, ekki neitt.“

Þrettán einstaklingar hafa nú lýst yfir framboði til forsetja og fastlega er búist við að Guðni Th. Jóhannesson bætist í hópinn á morgun. Framboðsfrestur er til 21. maí en utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst síðastliðinn laugardag.

„Það eru svo margir í framboði núna. Mér finnst vera komið nóg, eiginlega alltof mikið,“ sagði Guðmundur.

Aðspurður um hvort það kitli að reyna við embættið síðar svarar Guðmundur Ragnar. „Ég veit það ekki. Það kemur í ljós.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.