Hvorki þorrablót á Völlum né í Skriðdal í ár

Hvorki verður þorrablót í hinum forna Valla- eða Skriðdalshreppi á Fljótsdalshéraði í ár. Löng hefð er fyrir blótum á báðum stöðum en ekki tókst að koma saman nefndum að þessu sinni.

„Það var léleg mæting og dræmar undirtektir,“ segir Ævar Dungal sem ásamt Ásdísi konu sinni úthlutað var því verki að leiða Vallanefndina.

Þar er sú hefð að fólk er tilnefnt í nefnd, oft að því forspurðu. Látið var reyna á áhugann á blóti með fundum, símtölum og Facebook-hópi en svörunin hafi ekki verið slík að forsvaranlegt væri að halda blót.

Tvisvar hefur verið haldið sameiginlegt blót Skriðdælinga og Vallamanna en í fyrra voru haldin aðskilin blót. Í ár var reynt að ná sameiginlegu blóti en það gekk ekki heldur.

„Þau hafa tvisvar verið samkeyrð og það hefur lukkast vel,“ segir Jóhanna Fjóla Kristjánsdóttir, íbúi í Skriðdal.

Hún segir að viss vilji hafi verið til samstarfs en þegar á reyndi hafi nefndirnar bæði í Skriðdal og Völlum verið það fámennar að ekki voru forsendur fyrir blóti. Við hafi bæst að áhugasamt fólk hafi hreinlega ekki átt heimangengt að þessu sinni og upp komið atvik sem ekki voru fyrir séð.

Í Skriðdal hefur verið skipt í nefndir eftir bæjum. Jóhanna vonast til að messufallið í ár verði til þess að staðan verði metið til framtíðar. „Kannski verður þetta til þess að það náist að stokka upp og gera nýjar reglur. Það hefur fækkað mikið í þessum sveitum.“

Víða á Héraði hafa verið sameinuð blót með ágætum árangri, þannig var um síðustu helgi haldið sameiginlegt blót Jökuldælinga og Hlíðarmanna í Brúarási annars vegar og blót íbúa í Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá hins vegar.

Þorrablótavertíðinni lýkur á morgun, sem er síðasta degi þorra, en þá verður haldið þorrablót í Hróarstungu. Sala miða á það hefur gengið vel og er kominn biðlisti.

Frá þorrablóti á Völlum 2007.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.