Hver dagur felur í sér ákveðna samverustund

„Ég hafði sjálf alltaf föndrað svona dagatal með mínum börnum og þegar ég var að segja Þóru vinkonu minni frá því fyrir nokkrum árum kviknaði þessi hugmynd að prófa að gefa þetta út,“ segir Erla Björnsdóttir, sálfræðingur frá Norðfirði, um Jóladagatal fjölskyldunnar sem kemur út fjórða árið í röð í nóvember.


Jóladagatal fjölskyldunnar er dagatal þar sem hver dagur í desember einkennist af einhverri skemmtilegri samverustund sem öll fjölskyldan getur notið saman. „Hver dagur felur þannig í sér ákveðna samverustund sem fólk getur aðlagað svolítið eftir eigin þörfum. Það er hægt að gefa sér lengri tíma í hlutina ef aðstæður leyfa en ef fólk er í kappi við tímann er samt sem áður hægt að eiga þessar gæða samverustundir á styttri tíma.


Dæmi má nefna með daginn sem kallast „Jólin í gamladaga“ en þar eru foreldrar hvattir til að segja börnum sínum frá því hvernig jólin voru þegar þau voru börn og hvað hefur breyst. Skoða síðan gamlar fjölskyldumyndir síðan á jólunum, en gaman getur verið að skoða myndir nokkur ár aftur í tímann.


Jólaárbítur er líka annar dagur en miðast hann þá á helgidag þar sem fjölskyldan er hvött til að tæma ísskápinn og búa til dýrindis morgunverðastund saman. Svo erum við með rafmagnslausa daginn sem er alltaf mjög vinsæll en þá hvetjum við fólk til þess að slökkva á öllum raftækjum og slökkva öll ljós og eiga góða stund saman í myrkrinu. Einnig erum við með niðurtalningu til jóla og fróðleik um gamlar íslenskar jólahefðir og íslensku jólasveinana. Við birtum líka hvaða jólasveinn kemur til byggða þegar þeir fara að koma,“ segir Erla.

Styrkja Kvennaathvarfið í ár
Eins og segir í formála hafði Erla alltaf föndrað sambærileg dagatöl með sínum börnum og út frá því kviknaði hugmyndin. „Það er mikil handavinna að föndra þetta sjálfur og ekki allir sem hafa tímann í það þannig að okkur fannst þetta sniðugt og viðtökurnar hafa verið alveg frábærar. Við erum að gefa dagatalið út núna fjórða árið í röð og þetta er alltaf jafn vinsælt. Við höfum alltaf valið góðgerðarsamtök til að gefa hluta af ágóðanum og í ár verður það Kvennaathvarfið sem við ætlum að styrkja. Einnig höfum við verið í miklu samstarfi við íþróttafélög og alls kyns hópa sem eru í fjáröflun og hafa selt dagatalið í þeim tilgangi sem okkur finnst virkilega gaman.“

„Jólin eiga ekki bara að snúast um þennan eina dag“
Af hverju ættu fjölskyldur að smella sér á eintak? „Aðventan getur oft einkennst af miklum hraða og jafnvel stressi en þá er einmitt það mikilvægasta sem við getum gert að slaka aðeins á og taka smá tíma til hliðar fyrir það sem er allra dýrmætast, samvera með okkar nánustu. Jólin eiga ekki bara að snúast um þennan eina dag þar sem við borðum góðan mat og opnum gjafir heldur eigum við að njóta saman allan desember og skapa ljúfar jólaminningar með fjölskyldunni.“


Hér er hægt að panta dagatalið og er það sent frítt um land allt.

Jóladagatal fjölskyldunnar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.