Húsavíkurskyrið sem var í raun frá Egilsstöðum

Egilsstaðabúar lofuðu mikið skyr sem selt var í búðum þar í stuttan tíma eftir eldsvoða í mjólkurstöðinni haustið 1974. Skyrið var hins vegar ekki jafn frábrugðið því skyri sem þeir fengu vanalega og þeir héldu.


Á meðan mjólkurbúið var lagfært var öll mjólk send norður á Húsavík til pökkunar og þaðan aftur austur í sölu. Héraðsbúar héldu að þannig væri líka farið með skyrið en svo var ekki.

Skyrið sem fór í búðirnar var sett í trétunnur og það vildi svo vel til að það nokkrar tunnur voru til á kæli. Hann varð ekki óvirkur svo við kláruðum að selja skyrið í búðunum hér.

Fólkið dásamaði hvað „Húsavíkurskyrið“ væri gott. Skyrið sem var framleitt á þennan hátt lageraðist og varð betra, fínna og þéttara, eftir því sem það eldist. Þetta var eiginlega eldgamla aðferðin. Skyrið entist í 1-2 vikur og batnaði alltaf!“

Þetta segir Guttormur Metúsalemsson, fyrrverandi mjólkurbússtjóri á Egilsstöðum í viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Guttormur, sem vann í mjólkurbúinu í 50 ár, fer þar yfir ýmsa þætti í sögu Egilsstaðabæjar. Hann fæddist í þorpinu tólf dögum áður en það fékk kaupstaðarréttindi í maí árið 1947. Guttormur og bærinn fagna því 70 ára afmæli sínu í ár.

Guttormur hefur ávallt búið á Egilsstöðum utan þriggja vetra þar í Danmörku þar sem hann lærði mjólkurfræði.

Enginn vetur verið síðan 75

Bruninn í mjólkurstöðinni var bara byrjunin á erfiðum vetri sem Héraðsbúar tala um sem „snjóaveturinn mikla.“ Hann reyndist mjólkurstöðinni snúinn.

„Mesti snjórinn var í desember 1974. Göturnar voru ekki ruddar í fleiri vikur og ófært um allt. Ég bjó þá í Útgarði en allir bílar við Selásinn voru á kafi. Það voru gerðar slóðir sem mynduðust fyrst og fremst af snjóbílum og snjósleðum. Ég átti gamlan Ford-jeppa sem ég komst aðeins um á.

Það voru algjör vandræði í mjólkurmálum. Ýtur drógu sleða með mjólk utan úr Hjaltastaðaþinghá en mjólkin fraus í brúsunum sem var mjög slæmt.

Utan úr sveitum var engin umferð nema á sleðum. Bílaplanið við Kaupfélagið var fullt af snjósleðum. Skaflinn yfir það náði eiginlega fram af húsinu.

Á Egilsstaðabýlinu var hamast með jarðýtu við að moka fyrir utan hlöðuna því það skefldi svo yfir fjósið. Þar var reynt að spelka undir þakið með plönkum því snjóþyngdin á því var slík.

Af tröppum mjólkurbúsins, sem eru á sama stað og gengið er inn á skrifstofur Eflu í dag, sást ekki út í banka. Skaflinn var á hæð við húsið. Á Selásinum voru skaflarnir jafnháir húsunum. Það var endalaust skítviðri.

Utan af Eiðum heyrði maður sögur að menn þökkuðu fyrir að bjargast milli húsa um jólin. Manni finnst eiginlega engin vetur hafa verið síðan,“ rifjar Guttormur upp.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.