Hjóluðu yfir Vatnajökul á þremur dögum

Þeir Eiríkur Finnur Sigurgeirsson og Guðbjörn Margeirsson komu til Egilsstaða eftir hádegið í dag eftir að hafa hjólað ríflega 120 km leið yfir Vatnajökul. Þeir eyddu ári í undirbúning til að vita í hvaða aðstæðum það væri gerlegt.


„Það fylgir því vellíðunartilfinning að hafa sett sér stórt markmið og náð því,“ segir Guðbjörn.

Eiríkur Finnur er í Hjálparsveit skáta í Garðabæ en Guðbjörn í Flugbjörgunarsveitinni og félagar þeirra úr sveitunum keyrðu þá upp í Jökulheima á föstudagskvöld.

Fyrsti hlutinn, upp Tungnajökul, var erfiður þar sem nýlegur snjór var á svæðinu og þurftu félagarnir að reiða hjólin um 6 km leið þar til þeir voru komnir úr 700 metra hæð upp í 1000. Úr varð að þeir hjóluðu 20 km fyrstu nóttina.

Klukkan ellefu á laugardagsmorgun var snjóbráðin orðin of mikil til lengra yrði hjólað að sinni. Það var komið gott, þeir höfðu verið vakandi í 30 tíma því farið var af stað eftir fullan vinnudag.

Þeir hjóluðu á næturnar því þá var grimmdarfrost í heiðríkjunni. Á móti hvíldust þeir í sólinni á daginn, hlýindin þá gerðu þeim kleift að taka með sér léttari svefnpoka.

Vissu hvað þyrfti til að þeir gætu farið en ekki hvenær

Eiríkur átti hugmyndina að ferðinni þegar hann keypti sér svokallað „fat bike“ fyrir um ári. Hjólin eru á breiðari dekkjum en gengur og gerist og að auki slöngulaus þannig hægt er að stilla loftþrýstingin þannig þau fljóti á snjónum, líkt og fjallajeppar.

Hann nefndi hugmyndina við Guðbjörn og þeir hófust handa við að skipuleggja ferðina. „Veturinn hefur farið í að skipuleggja ferðina. Við vissum hvaða aðstæður þyrftu að vera áður en við færum og meðan við vorum á ferðinni,“ segir Guðbjörn.

Eiríkur samdi um að fá sig lausan úr vinnu einhvern tíman á bilinu seinni hluta apríl fram í miðjan maí en vissi ekki hvenær hann stykki af stað. Hinn kosturinn hefði verið að hjóla á gömlum snjó að hausti til en Eiríkur og Guðbjörn vildu frekar fara að vori.

Erfiðast að komast til byggða

Þeir fóru norður fyrir Grímsvötn, tóku síðan stefnuna beint yfir jökulinn á Brúarjökul og niður eftir honum. Annan daginn hjóluðu þeir 40 km og 60 km þann þriðja.

Þeir komu niður af jöklinum um hádegið í gær en þá tók við einn erfiðasti kafli leiðarinnar. Út af vorleysingum óðu þeir í drullu og krapa til klukkan tíu í gærkvöldi að Snæfellsskála. Vinur þeirra frá Egilsstöðum sótti þá upp á Fljótsdalsheiði í morgun. „Þetta voru voraðstæður eins og þær gerast erfiðastar,“ segir Guðbjörn.

Fóru hraðar yfir en ætlað var

Þetta er þriðji hjólaleiðangurinn yfir jökulinn sem þeir vita um, sá fyrsti var farinn árið 1992 og sá seinni tveimur árum síðar.

En það sérstæðasta við ferðina var hversu hratt þeir fóru yfir. „Við vorum ekkert að segja fólkinu í kringum okkur hvað við ætluðum að fara yfir á stuttum tíma. Síðasta nótt var sú fyrsta sem við sváfum eitthvað af viti.

Við ætluðum að fara á lengri tíma, um viku en við sáum að aðstæður voru mjög góðar í stuttan tíma yfir helgina og ákváðum að nýta það eins og við gátum. Við skárum niður farangur eins og hægt var, tókum bara það nauðsynlegasta með og svo var bara farið af stað.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.