„Hér er gott að búa og vera“

„Þetta hefur svo allt verið á uppleið síðustu ár, unga fólkið er að flytja aftur heim og börnum er að fjölga á staðnum,“ sagði Vopnfirðingurinn Bjarney Guðrún Jónsdóttir í forsíðuviðtali Austurgluggans fyrir stuttu.


Bjarney Guðrún stýrir framhaldsskóladeildinni á Vopnafirði. Hún segist hafa upplifað margar sveiflur í samfélaginu en segir allt á uppleið og framtíðina bjarta.

„Samfélagið hefur farið upp og niður þessi 15 ár sem ég hef verið hér núna. Sjálf hef ég alveg staðið frammi fyrir þeirri spurningu hvort ekki væri bara best að flytja í burtu. Maðurinn minn er orðinn svo mikill Vopnfirðingur og tók það aldrei í mál, ég hefði þá líklega þurft að fara ein. Hann er mikill veiðimaður og segist vera í Paradís á jörðu hér.

Ég held að það sé mjög bjart fram undan. Hér er gott að búa og vera. Það er ofsalega gott að ala upp börn hér, samfélagið er gott og þjónustustigið hátt miðað við stærð, auk þess sem samgöngur hafa batnað mikið. Ég held að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi á Vopnafirði þó svo vissulega þurfum við að skapa fjölbreyttari störf.“

Sjálfbæri útivistarleikurinn Ögrun
Í sumar stóð Bjarney fyrir útivistarleiknum Ögrun. „Ég hef lengi gengið með þá hugmynd í maganum að reyna að finna einhverja leið til að fá fólk til að heimsækja okkur á Vopnafjörð og sjá hversu fjölbreytta og skemmtilega náttúru fjörðurinn býður upp á.“

Um sjálfbæran myndaratleik er að ræða sem skiptist í þrjú erfiðleikastig: gull-, silfur- og bronshring. „Í hverjum hring á að taka myndir af átta áhugaverðum stöðum og leikurinn gengur út á það að liðin eiga að finna þessa staði og taka eins mynd með sínu liði inn á og pósta henni á síðu leiksins. Það lið sem er fyrst til að birta allar átta myndirnar frá réttu sjónarhorni vinnur.“

Með leiknum vill Bjarney hvetja fólk til þess að heimsækja Vopnafjörð og taka þátt í leiknum, virkja íbúa Vopnafjarðar til útivistar í heimabyggð og skapa tækifæri til hreyfitengdrar ferðamennsku.

„Mig langar ótrúlega að þetta komi Vopnafirði á kortið sem áfangastað. Við höfum upp á svo margt að bjóða, falleg fjöll, gróskumikla dali, endalaust af ám, dásamlega strandlengju að ógleymdum heiðunum þar sem er alger auðn og víðátta. Mig dreymir um að búa til heildarpakka sem er útivist, matur og gisting. Ég ætla að nýta veturinn í að finna markhópinn og þróa þetta allt saman.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.