Helvítisgjáin er mesta undur veraldar

Draumey Ósk Ómarsdóttir, formaður Leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum er í yfirheyrslu vikunnar, en félagið frumsýnir leikritið Ronju Ræningjadóttur í leikstjórn Írisar Lindar Sævarsdóttur í Frystiklefa Sláturhússins á Egilsstöðum í kvöld.



Af hverju varð Ronja Ræningjadóttir fyrir valinu að þessu sinni? „Þegar maður býr á Austurlandi er ekki hlaupið að því að sækja leikhús og þegar hópurinn valdi leikrit í haust var það gert með það í huga að sem flestir gætu notið, hugmyndinar voru margar en lendingin varð fjölskyldusýningin Ronja Ræningjadóttir. Söguna þekkja flestir enda er hún eftir Astrid Lindgren einn ástsælasta barnabókahöfund síðustu aldar. Við hugsuðum að það væri gaman fyrir fjölskylduna að fara saman á þessa sýningu, mörg börn eru kannski að fara í fyrsta skiptið í leikhús og fyrst að fara kynnast Ronju núna og þeir fullorðnu fá tækifæri til þess að rifja upp,“ segir Draumey Ósk.


Sviðið í sömu hæð og áhorfendur

Draumey Ósk segir að það sé svolítið sérstakt að setja sýninguna upp í Frystiklefanum. „Þar er sviðið í sömu hæð og áhorfendur, allt hljóð berst mjög vel um þar sem að baksviðið er aðeins þunn tjöld og auk þess er það heldur lítið. En Frystiklefinn er hinsvegar alveg eins og steinsalur og þess vegna fannst okkur alveg tilvalið að setja sýninguna upp í honum, en þar náum við að fanga andann sem ríkir í Matthíasarskógi.“

Hefur kostað mikinn tíma og vinnu

Draumey Ósk segir hópinn samstilltan og undirbúning hafa gengið vel. „Þetta hefur þó kostað mikinn tíma og vinnu og höfum nánast búið í Sláturhúsinu upp á síðkastið. En þessi tími hefur líka þjappað hópnum vel saman, það er aldrei langt í söng eða dans hjá okkur og við tökum alltaf skemmtilegar upphitanir.“


Allir „eiga heima“ í leikfélaginu

Draumey Ósk segir að það sé svo marg sem heilli hana við leiklistina. „Maður færi tækifæri til þess að setja sig í spor annarra og á sama tíma kynnast sjálfum sér betur. En það sem hefur heillað mig hvað mest þegar ég hef unnið með leikfélaginu er það hvað allir „eiga heima í því“ – það þarf sviðsmynd, leikmuni, hljóð, ljós, búninga, smink og svo markaðssetningu, þetta snýst ekki bara um það að standa uppá sviði og leika. Til þess að leiksýning geti orðið að veruleika þarf helling af allskonar fólki sem er tilbúið að leggja á sig mikla vinnu og það eru allir velkomnir í LME. Það er einmitt það sem mér finnst fallegt – að hausti kemur saman hópur af allskonar krökkum sem þekkjumst mismikið ef eitthvað, með það í huga að setja upp leiksýningu og á meðan á ferlinu stendur verðum að þessari samrýndu fjölskyldu, þar sem allir skipta jafn miklu máli og afrakstur vinnunar, leikritið, má segja að sé barnið okkar.“

Hér má fylgjast með sýningunum.

Ronja Ræningjadóttir 


Fullt nafn: Draumey Ósk Ómarsdóttir

Aldur: 18. ára.

Starf: Nemi.

Maki: Hef ekki hitt hann ennþá að mér best vitandi.

Börn: Ég á svo mörg yngri systkin, læt þau nægja í bili.

 

Tæknibúnaður? Ekki mikill. Ég geng ekki einu sinni með síma. Þannig að ef fólk ætlar að ná sambandi við mig að þá þarf það bara að vona að ég sé við tölvu, elta mig uppi eða hafa samband við vini mína.

Hvað er í töskunni þinni? Hvað er ég ekki með? Ég er reyndar meira fyrir það að troða öllu mögulega í vasana mína en þessa dagana hefur handritið af Ronju Ræningjadóttur alltaf ratað ofan í tösku, annað hefur fengið að mæta rest.

Mesta undur veraldar? Svartavíti eða Helvítisgjáin eins og hún heitir víst líka.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítil? Í Grunnskóla Reyðarfjarðar er venja fyrir því á árshátíðinni að fyrstu bekkingar kynni sig og segi hvað þeir ætli að verða þegar þeir verða stórir. Ég hinsvegar missti af henni og Sandra vinkona mín stökk í skarðið og kynnti mig sem Draumeyju Ósk Jóhannsdóttir, sú Draumey ætlaði víst að verða hárgreiðslukona en ég kannast ekkert við það, mig langaði að verða fornleifafræðingur.

Hvað ætlar þú að verða í dag? Hmm. Allavega ekki hárgreiðslukona og ég er alveg ákveðin í því að grotna ekki niður í skrifstofustarfi. Kemur í ljós.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er ekki dýr í fóðrun.

Hver er þinn helsti ókostur? Fólkið í kringum mig myndi örugglega segja að hann væri hvað það er erfitt að ná í mig, ekki bara vegna þess að ég geng ekki með síma heldur er líka alltaf svo rosalega utan við mig í mínum eigin heimi.

Hvernig líta kósýfötin þín út? Ég geng bara í kósýfötum en annars sef ég yfirleitt í sweatpants, háskólapeysu og sokkum.

Hvernig standa jafnréttismál að þínu mati? Jafnrétti er stórt hugtak, það er margt sem hefur breyst til hins betra en það er ennþá margt sem má gera betur.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Föstudagur vegna þess að þá er eftiréttur í mötuneytinu og allir í svo góðum fíling á leiðinni inní helgina, annars eru sunnudagar líka alltaf kósý.

Hver er þín fyrirmynd? Þær eru svo margar. En aðalega myndi ég segja fólkið sem ól mig upp og fólkið sem ég umgengst daglega, það býr margt gott í því sem maður vill tileinka sér.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Pizza og ekkert verra ef hún er frá Dominos.

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Hmm vá það er svo langt síðan maður hefur haft tíma til þess. En Gistihúsið bauð okkur leikhópnum í SPA eftir general, svo sefur maður auðvitað út á frumsýningardag, borðar eitthvað gott og tekur því rólega.

Syngur þú í sturtu? Að sjálfsögðu!

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ætli ég myndi ekki biðja Leonardo da Vinci að mála mynd af mér, nei ég segi svona.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Einlægni, hún er svo falleg.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Ég myndi vilja grænni jörð fyrir komandi kynslóðir, þá gæfist okkur kannski nægur tími til þess að koma á heimsfrið og ná fullu jafnrétti.

Hver eru þín helstu áhugamál? Leiklistin en svo þykir mér gaman að gera flest allt annað ef ég er í skemmtilegum félagsskap.

Settir þú þér áramótaheit? Venjulega geri ég það ekki en þessi áramót hét ég þess að fara á McDonald’s á árinu.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Númer eitt er örugglega að gera einn slíkan og fylgja honum eftir. Annars langar mig að ferðast og á eflaust eftir að geta strikað mikið útaf listanum eftir það.

Draumastaður í heiminum? Berjamór í íslenskri náttúru á hlýjum ágúst degi.

Duldir hæfileikar? Þeir hljóta að vera rosa duldir, mér dettur allavega ekkert í hug í augnablikinu.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Ég byrja helgina á því að frumsýna Ronju með LME og að sjálfsögðu ætlar hópurinn að fagna því. Á sunnudaginn ætlum við svo að sýna tvær sýningar, þannig þetta verður strembin en skemmtileg helgi!

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.