Helgin: „Við erum öll með gæsahúð af spenningi“

„Undirbúningur hefur gengið vel og allt gekk eins vel og það á að ganga á generalprufunni í gær,“ segir Freyja Kristjánsdóttir, leikari í verkinum Maður í mislitum sokkum sem Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir á Iðavöllum í kvöld.

Maður í mislitum sokkum er eftir Arnmund Backman og nú í leikstjórn Almars Blæs Sigurjónssonar og Sigurbjargar Lovísu Árnadóttur aðstoðarleikstjóra. Verkið er frá árinu 1998 og var fyrst sett upp af Snúði og Snældu, þá í Þjóðleikhúsinu og svo hefur það verið sýnt af áhugaleikhópum víða um land. Verkið segir frá kostulegri atburðarás þegar öldruð ekkja finnur ókunnugan mann á sínum aldri í bíl sínum og tekur hann með sér heim þar sem hann virðist minnislaus. Í söguna blandast vinir ekkjunnar og nágrannar úr eldriborgarablokkinni og sitt sýnist hverjum um þennan ókunna aðkomumann.

„Verkið er létt, fjörugt og skemmtilegt og hæfir öllum, í það minnsta ætla ég að bjóða sex ára barnabarni mínu í kvöld. Það hefur verið dásamlegt að vera inn á Iðavöllum, í þessu hlýlega félagsheimili þar sem ríkir einstaklega góður andi, eins og í hópnum okkar,“ segir Freyja.

Sýningin hefst klukkan 20:00 en nánari upplýsingar um hana er að finna hér.


Héraðsdætur syngja á Seyðisfirði

Kvennakórinn Héraðsdætur verður með vortónleika Ó blessuð vertu sumarsól í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði á morgun laugardag, klukkan 16:00. Nánar má lesa um tónleikana hér.

Göngum saman á sunnudaginn

Styrktarganga Göngum saman 2017 fer fram á sunnudaginn, mæðradaginn. Gengið verður á fjórtán stöðum á landinu þar á meðal á Vopnafirði, Neskaupsstað og Reyðarfirði.

Á Vopnafirði verður gengið frá Kaupvangskaffi, frá íþróttahúsinu á Norfirði og Stríðsárasafninu á Reyðarfirði. Á öllum stöðum hefst gangan klukkan 11:00. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

Nýtt gallerý

Fyrsta sýningin í Stúdíó Ströndinni opnar klukkan fimm í dag. Þar er um að ræða sýningu á verkum Gísla Sigurðarsonar sem myndaði hversdagslíf á Seyðisfirði árin 1957-1991 og lagði í ríkan sjóð bæjarins af sögulegu myndmáli. Líkt og margir Seyðfirðingar, starfaði Gísli við fiskverkun hjá Ströndin. Ströndin Studio er staðsett í fyrrum verbúð síldarsöltunnarstöðvarinnar við Strandarveg. Undir áhrifum af sögu Seyðisfjarðar er það markmið Strandarinnar að miðla og þróa “analog” ljósmyndun og prent á Austurlandi. Sýningin er unninn í samvinnu við Tækniminjasafn Austurlands. Kærar þakkir til fjölskyldu Gísla Sigurðssonar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.