Helgin; „Í gegnum árin hafa verið frábærir listamenn og verður ekki nein breyting á því nú í ár“

„Þetta er 29. Jazzhátíðin, svo við eigum stórafmæli á næsta ári“, segir Jón Hilmar Kárason framkvæmdastjóri JEA Jazzhátíðar, sem fram fer nú um helgina.

Elsta jazzhátíð landsins

JEA Jazzhátíði hefur verið árlegur viðburður við tónlistarflóru Austurlands frá því 1988, og er þar af leiðandi elsta jazzhátíð á Íslandi. „Það stefnir í mjög góða mætingu nú í ár, eins og flest árin á undan, sem er frábært. Þetta veltur allt á mætingunni. Í gegnum árin hafa verið frábærir listamenn og verður ekki nein breyting á því nú í ár,“ segir Jón Hilmar.

Slagararnir Sylvia og Hocus Pocus

Það er hollenska hljómsveitin Focus sem mun koma fram í ár, en hljómsveitin var vinsæl á áttunda áratugnum og er þekktust fyrir slagarana Sylviu og Hocus Pocus. „Focus er ekki endilega hljómsveit sem margir þekkja, en fólk þekkir þó þessa slagara og einnig þekkja þeir kannski stefið úr Stiklum með Ómari Rargnarssyni, en það er þeirra líka. “ segir Jón Hilmar.
Focus kom hingað að spila í fyrra en Jón Hilmar náði þó ekki að sjá þá á sviði þá, svo spennan er mikil fyrir helginni. „Það má segja að þeir hafi verið mjög lengi í uppáhaldi hjá mér, en ég hef aldrei séð þá spila á sviði svo ég er mjög spenntur. Ég frétti að þeir væru að koma aftur núna í ár til Íslands, svo ég ákvað að fá þá austur á hátíðina,“ segir Jón Hilmar.

„Kannski síðasta ferð fólks yfir skarðið áður en göngin opna“

Tónleikarnir eru í Egilsbúð í ár en Jón Hilmar hafði í huga að hafa þá fyrstu tónleika eftir opnun ganganna. „Gunnar Þórða er í beituskúrnum á föstudagskvöldið og Hildebrand með gott tilboð í gistingu um helgina. Mig langaði til að fólk gerði sér ferð í gegnum nýju göngin til að koma á tónleika hjá okkur. En það gengur ekki alveg eftir því miður. Í staðinn verður þetta þá kannski síðasta ferð fólks yfir skarðið áður en göngin opna,“ segir Jón Hilmar.

Melarétt í Fljótsdal frestað


Vegna slæmrar veðurspár verður frestað til sunnudagsins 24. September að rétta í Melarétt í Fljótsdal. Rekstur úr safnhólfi hefst kl. 11:00 og byrjað verður að rétta kl. 13:00

Cittaslow á Djúpavogi


Ár hvert er Cittaslow sunnudagurinn haldinn síðasta sunnudag í September í öllum aðilarsveitarfélögum Cittaslow. Að þessu sinni er þemað matur og menning úr héraði.
Cittaslow sunnudagurinn verður í Langabúð, 24. September kl. 11:00 – 14:00. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

Októberfest Lárunnar á Seyðisfirði

Þann 23. September verður Októberfest Lárunnar á Seyðisfirði. Boðið verður upp á þýska eðalrétti ásamt fjölbreyttu úrvali af bjórum á dælu og flöskum. Eldhúsið verður opið frá 12:00 – 23:00.
Eftir kvöldmat hefst síðan sannköllum Októberfest stemming fram á nótt.
Nánari upplýsingar má nálgast hér.

Gospelnámskeið á Eskifirði

Gospelnámskeið verður haldið 22. – 24. September í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Námskeiðið hefst föstudaginn 22. September kl. 19:00 og lýkur því með tónleikum 24. September kl. 16:00.
Nánar má lesa um viðburðinn hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.