Orkumálinn 2024

Helgin: Hóf tónlistarferilinn í Miklagarði

„Það er alltaf mjög gaman að koma heim og spila, það er æðislegt,“ segir Pálmi Gunnarsson, tónlistarmaður um stórtónleikana Vopnaskaks sem haldnir verða í Miklagarði á Vopnafirði á laugardagskvöld.


Fjölmargir listamenn koma fram á tónleikunum, meðal annars Björgvin Halldórsson, Pálmi Gunnarsson, Stefanía Svavarsdóttir, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Gabríela Magnúsdóttir, Steini Bjarka, Karlakór Vopnafjarðar og Hljómsveit Tomma Tomm.

„Þetta er stórt og mikið prógramm og sjálfur mun ég flytja þverskurð af því sem ég hef verið að gera gegnum tíðina.

Það er alltaf ómetanlegt að spila heima á Vopnafirði. Ég steig mín fyrstu skref sem tónlistarmaður í Miklagarði þannig það hellast allaf yfir mig minningar sem tengjast húsinu og staðnum þegar ég kem þangað,“ segir Pálmi.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00. Nóg annað er um að vera á Vopnafirði alla helgina og allar upplýsingar má nálgast hér.  

Gönguvikan Á fætur í Fjarðabyggð
Göngu- og gleðivikan Á fætur í Fjarðabyggð hefst á laugdardaginn og fyllir átta daga af fjölbreyttum viðburðum og frábærri útivist svo sem fjölskyldugöngum, sögugöngum, krefjandi áskorunum fyrir alvöru göngugarpa og allt þar á milli. Að göngudegi loknum tekur gleðin völd með kvöldvökum, tónlist, leiklist og sjóhúsagleði.

Fjöllin fimm eru skemmtileg áskorun fyrir alla þátttakendur. Þeir sem klífa þau öll fá heiðursnafnbótina "Fjallagarpur gönguvikunnar". Fyrir 15 ára dugar að klífa þrjú fjöll til að landa þessum eftirsóknarverða titli. Skipuleggjendur eru Ferðafélag Fjarðamanna í samstarfi við Ferðaþjónustuna Mjóeyri. Nánar má fylgjast með gönguvikunni hér.

Ljósmyndasýning á Vopnafirði
Þórunnar Óskar Helgadóttur opnar ljósmyndasýningu á Vopnafirði á morgun. Sýningin er tileinkuð föður hennar sem fyrir áratug féll fyrir eigin hendi eftir róstursamt tímabil í lífinu. „Við sviplegt fráfall hans varð ég sem lömuð og skildi í raun ekki hvernig lífið gat gengið sinn vanagang í kjölfarið. Á meðan ég hef verið að vinna að þessu verki hafa komið upp margvíslegar minningar og tilfinningar. Ég hef efast um að ég sé að gera rétt, bæði gagnvart sjálfri mér, honum og öllum þeim sem þótti vænt um hann og sakna. Ég stend frammi fyrir því flókna vandamáli að vera að fjalla um einhvern sem er farinn. Hvernig geri ég ljósmyndaverk um einhvern sem er ekki lengur til? Það upphófst því mikil leit hjá mér að því hvaða leið ég gæti farið til að leysa verkefnið, ég var alltaf að leita að einni ákveðinni lausn. En það er engin ein lausn og við sumum spurningum er ekkert svar,“ segir ljósmyndarinn Þórunn Ósk Helgadóttir frá Vopnafirði. Nánar má fylgjast með viðburðinum hér.

Opinn fundur um stöðu ferðamála á Seyðisfirði
Opinn fundur um stöðu ferðamála á Seyðisfirði verður haldinn í Ferjuhúsinu á Seyðisfirði á laugardaginn, þar sem meðal annars verður rætt um fjölgun ferðamanna og skemmtiferðaskipa á Seyðisfirði, sem snertir flesta fleti mannlífs á Seyðisfirði. Nánar má fylgjast með viðburðinum hér.

Kyrrðarganga í Jafnadal
Kyrrðarganga verður um Jafnadal í Stöðvarfirði á laugardagskvöldið. Mæting er klukkan hálf tíu við hliðið á Stöð og haldið verður að stað klukkan tíu. Gengið verður rólega í kyrrð og þögn upp að Einbúa. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

Skógardagurinn mikli

Vegleg dagskrá verður í Hallormsstaðarskógi á morgun þar sem skógardagurinn mikli fer fram. Á hádegi verður ræst í skógarhlaup en aðaldagskráin er í Mörkinni frá kl. 13-16. Hápunkturinn er að vanda Íslandsmótið í skógarhöggi. Nánar má dagskrána hér:

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.