Helgin: Blúshátíð, kaffitónleikar, hljómsveitanámskeið og fleira

„Ég er búinn að ætla mér að gera þetta í mörg ár, en hef ekki lagt í það fyrr en núna,“ segir Garðar Harðar, tónlistarmaður á Stöðvarfirði sem stendur fyrir tveggja daga blúshátíð á staðnum um helgina.


Garðar segist hafa hugsað með sér að hann hlyti að geta hóað saman vinum og vandamönnum til þess að spila eitt kvöld en útkoman er gott betri en það.

„Ég bara fór af stað og hafði samband við fólk og spurði hvort það vildi koma og spila en það yrði að vera frítt þar sem engir peningar væru til. Skemmst er frá því að segja að tónlistarfólk tók svo vel í það að hugmyndin vatt upp á sig og áður en ég vissi var búið að fylla dagskrá fyrir tvö kvöld. Aðsóknin í að spila var það mikið að ég þurfti meira að segja að hafna nokkrum sem vildu koma að sunnan til að spila. Þegar ég sá hve áhuginn var mikill hér fyrir austan ákvað ég strax að þetta árið myndi fókusinn algerlega vera á heimafólki og tók ég það því framyfir aðra.“

Hátíðin verður haldin í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði nú um helgina þar sem tónlistarfólk úr fjórðungnum skemmtir fólki því að kostnaðarlausu.

Hátíðin hefst í kvöld í gamla frystiklefanum í Sköpunarmiðstöðinni þar sem fram koma meðan annars Fjarðadætur, Kór Reyðarfjarðarkirkju, MurMur, The Borrowed Brass Blues Band og Guðgeir Björnsson.

Á laugardaginn verður svokallað „Jam session“ í gamla grunninum utan við Sköpunarmiðstöðina. Þar geta allir sem vilja komið og tekið lagið og hver veit nema nýjar hljómsveitir verði til. Heitt veður í kolunum og fólk hvatt til þess að koma með eitthvað gott á grillið og njóta dagsins.

Lokatónleikar verða svo á laugardagskvöldið þegar Blúsband Bjössa Sigfinns og Máni & the Roadkillers stíga á stokk, sem og hljómsveit Garðars, Blúsbrot Garðars Harðar.

Fylgjast má með hátíðinni hér.

Miklu fleira áhugavert verður um að vera í fjórðungnum um helgina;

 

Hádegisjóga í Sláturhúsinu

Hádegisjóga í Sláturhúsinu milli klukkan 12:10 til 12:50 í dag. Sjá nánar hér.

 Steina-Petra flakkar um Austurland


Leikhópurinn Dance For Me flakkar nú um Austurland með sýninguna Petra eins og Austurfrétt greindi frá í vikunni, en frettina má sjá hér. Þrjár sýningar eru eftir, í Miklagarði á Vopnafirði í kvöld, í Félagslundi á Reyðarfirði á laugardagskvöld og loks í Grunnskólinn á Stöðvarfirði á sunnudagskvöld.

Allar sýningarnar hefjast klukkan 20:00 og nánar má lesa um það hér


Liljurnar, Tónlistarskólinn á Egilsstöðum og Meistarar Dauðans

Stúlknakórinn Liljurnar á Egilsstöðum halda tónleika í samstarfi við Tónlistarskólann á Egilsstöðum og hjómsveitina Meistara Dauðans frá Reykjavík, en hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunana fyrir rokkplötu ársins í haust.

Tónleikarnir verða í Valaskjálf á Egilsstöðum í kvöld og hefjast þeir klukkan 19:00.

Fyrsta opnunarhelgi Salthússmarkaðsins á Stöðvarfirði

Hinn rómaði handverksmarkaður á Stöðvarfirði opnar á ný um helgia eftir vetrarhvíld. Á laugardaginn klukkan 14:00 mun Blúshátíð Stöðvarfjarðar bjóða upp á tónlistaratriði á markaðnum.

Opnað verður á föstudaginn klukkan 11:00 og opið verður alla daga í sumar milli klukkan 11:00-17:00.

Kaffitónleikar með Kór Reyðarfjarðarkirkju

Kór Reyðarfjarðarkirkju heldur kaffitónleika í Grunnskóla Reyðarfjarðar á sunnudaginn klukkan 15:00 sunnudaginn.

Kórinn mun syngja í Grunnskóla Reyðarfjarðar en ef það brestur á með brakandi blíðu verður viðburðurinn fluttur út undir beran himinn. Kórinn verður ekki einn á sviðinu því góðir gestir munu stíga á stokk.

Kaffi og meðlæti kosta 1000 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir grunnskólabörn. Ókeypis fyrir yngri börn.

Vinnustofunámskeið Meistara dauðans

Hljómsveitin Meistarar dauðans er skipuð 12-16 ára gömlum hljóðfæraleikurum og lagahöfundum. Þeir eru úr Reykjavík en eru ættaðir að austan og eru staddir á svæðinu til að taka þátt í Öðruvísitónleikum Liljanna.

Þeir vilja nota tækifærið og bjóða ungu fólki að spila með sér og skiptast á skoðunum og þekkingu um tónlist í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á sunnudaginn milli 13:00 og 16:00.

Boðið er upp á leiðsögn í laga- og textagerð, tónstiga og tónfræði eða hvað sem er. Tveir úr hljómsveitinni eru útskrifaðir með miðpróf í tónfræðum frá tónlistaskóla FÍH og leiðbeina eftir getu.

Nánar má kynna sér viðburðinn hér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.