Helgin: „Aðalatriðið er að vera forvitinn“

„Sumarsýning Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs er fjölbreytt og skemmtileg, þar koma saman ólíkir sýnendur með verk sem eru eðlisólík,“ segir Kristín Amalía Atladóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs um sýninguna sem opnar í Sláturhúsinu á laugardaginn.


Kristín segir almenning duglegan að mæta á sýningar en ætla mætti. „Sérstaklega þegar við höfum það í huga að í gegnum tíðina hefur listin og listheimurinn ekki verið ætlaður almenningi. Þvert á móti, hámenning og listin sem hún byggir á hefur haldið sérstöðu sinni og vægi með því að útiloka aðra en sérvalda.

Það hefur ætíð verið eftirsótt að komast í hóp hinna sérvöldu, þeirra sem eiga aðgang að og tilheyra listheiminum. En almenningur hefur ætíð haft áhuga á að skapa, og að njóta, lista. Þegar við náum að setja upp fjölbreyttar sýninga, líkt og þær sem nú verða til sýnis í Sláturhúsinu, þurfum við einfaldlega að gefa okkur tíma og leyfa fólki að koma inn og skoða þegar því hentar eða langar. Detta inn og eiga stund með sjálfum sér og verkunum, ráfa um í rólegheitum og skoða, það fara allir betur stemmdir og upplyftari úr húsi.“

Kristín segir það ekki skipta máli hvort áhorfendur hafi eitthvað sérstakt vit á því sem fyrir augu og eyru ber eða beri faglegt skynbragð á um hvað ræðir. „Aðalatriðið er að vera forvitinn og hafa áhuga á að njóta þess að hverfa um stund inn í hugarheim annarra og sjá hvernig þeir raungera hugmyndir sínar og skilaboð. Og hafa gaman af að láta koma sér á óvart. Hver og einn upplifir listverk með sínum hætti og skemmtilegast er það sem gerist í þriðja rýminu, því sem skapast þegar hver einn einstakur áhorfandi skoðar og upplifir verkin.“

Að þessu sinni samanstendur hún af þremur ólíkum sýningum á báðum hæðum hússins, þær eru;

Amma - Textílinnsetning Guðnýjar G. H. Marinósdóttur.
Fædd í Sláturhúsinu – Alþjóðleg samsýning níu listamanna
Þorpið á Ásnum – Sýning í tilefni af 70 ára afmæli Egilsstaðahrepps

Nánar má lesa um sýningarnar hér.


Opnunarpartý Beljandi Brugghús
Beljandi brugghús á Breiðdalsvík blæs til opnunarpartýs á laugardaginn 17. júní. Bjórsmakk og kynning á bjórhúsinu auk tónleika með Jóni Torfa úr hljómsveitinni Þrír. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

KK í Havarí
Sumargleðin heldur áfram í Havarí á Karlsstöðum og mun KK halda tónleika þar á föstudagskvöldið en eins og allir vita er hann einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar þannig að þetta getur ekki klikkað. Nánar má lesa um tónleikana hér.

Jaðaráhrif í Skaftfelli
Sýningin Jaðaráhrif opnar í Skaftfelli laugardaginn 17. júní, en hún er hluti af sýningarröðinni Edge Effects og afurð rannsóknarverkefnisins Frontiers in Retreat. Sýnendur eru þau Kati Gausmann, Ráðhildur Ingadóttir og Richard Skelton. Útgangspunktur verkefnisins er samspil myndlistar og vistfræði og að skoða hvernig má leitast við að skilja og skilgreina margþætta aðferðarfræði sem ætlað er að taka á umhverfismálum. Sýningin í Skaftfelli er önnur af sjö sýningum sem opna á komandi mánuðum. Hér má nánar lesa um sýninguna.

Rock the boat
Tónlistarviðburðurinn Rock the boat verður annað árið í röð á Breiðdalsvík á þjóðhátíðardaginn. Kvenfélagið Hlíf stendur fyrir útitónleikum við gamla bátinn og hefst gleðin klukkan 18:00 með grilli en tónleikarnir hefjast klukkan 19:30. MurMur, Vinny Vamos og fleiri munu skemmta gestum. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

Burstafellsdagurinn
Bustarfellsdagurinn er á sunnudaginn og er upphaf bæjarhátíðarinnar Vopnaskaks sem stendur frá 18. - 25. júní með þéttri og skemmtilegri dagskrá.

Ungir Vopnfirðingar verða í forgrunni við sýningu á gömlum verkhefðum. Þá má einnig sjá sýninguna Úr þeli í þráð í sparðinu, búaleik í Hjallinum, Fjarðadætur syngja í tjaldinu, eldsmiðir á planinu, harmonikkuleikur og söngur í gamla bænum, ljósmyndasýning á Jónsskemmulofti og fleira. Nánar má lesa um Burstafellsdaginn hér.

Dætradraumar á Hótel Tanga
Fjarðadætur frá Reyðarfirði verða með sumartónleikana Dætradraumar á Hótel Tanga á Vopnafirði á sunnudagskvöldið. Á tónleikunum verða flutt mörg af uppáhaldslögum söngkvennanna, íslensk og erlend í bland. Nánari upplýsingar um tónleikana má finna hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.