Orkumálinn 2024

Guðrún Smáradóttir: „Dansinn hefur gefið mér gleði“

Guðrún Smáradóttir hefur kennt Austfirðingum, jafnt ungum sem öldnum, að dansa í um þrjátíu ár. Hún hefur einnig samið dansspor fyrir margvíslegar sýningar og kennir Norðfirðingum Zumba. Hún segist alltaf hafa haft gaman af hreyfingu og dansinn hafi fyrst og síðast fært henni gleði.


„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á hreyfingu og fannst gaman sem barni í danskennslu,“ segir Guðrún í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Guðrún hefur í 20 ár verið danskennari hjá Fjarðabyggð en er í vetur í launalausu leyfi og starfar sem viðburðastjóri hjá Hljóðkerfaleigu Austurlands.

Hún kennir hins vegar dansnámskeið á öðrum stöðum á Austurlandi og er með danshóp eldri borgara á Norðfirði.

„Ég segi rosa sjaldan nei því mér finnst þetta alla jafna skemmtilegt. Dansinn hefur fyrst og fremst gefið mér gleði. Ég hef farið víða, oft kenndi ég á 13 stöðum á landinu á vetri, og kynnst afskaplega mörgum. Suma staði hef ég heimsótt oft og þá myndar maður tengsl og eignast vini.

Afi, pabbi og mamma

Í hópnum á Norðfirði dansa afi hennar, pabbi og mamma. Íþróttahefðin er mikil í fjölskyldunni og þaðan kemur væntanlega dansáhuginn en afi hennar er Stefán Þorleifsson, fyrrum íþróttakennari.

„Það var dansað töluvert heima hjá honum í æsku, mögulega er þetta bara í fjölskyldunni. Ég var mikið í íþróttum og svo leiddi eitt af öðru.

„Afi dansar einu sinni í viku. Amma heitin gerði það ekki en hann hefur svo gaman af þessu og mætir alltaf. Ég held svei mér þá hann hafi dansað við sömu konuna allan tíma, hún var ekkja.

Margir þarna hafa átt sína dansfélaga alla tíð. Venjulega mæta fleiri konur en karlar og sumar eiga sér sína dömu og hafa tekið að sér að dansa alltaf herraspor. Þarna er mikið hlegið og mikið gaman.“

Löngu hætt að láta bjóða upp í dans

Guðrún var aðeins einn vetur í framhaldsskóla á Norðfirði en eftir hann hélt hún suður til Reykjavíkur til að læra að verða danskennari. Námið er að mestu verklegt þannig að strax er byrjað að kenna.

„Ég er búin að kenna dans í 32 ár,“ segir Guðrún sem útskrifaðist sem danskennari 22ja ára gömul árið 1988.

Danskennslan hefur þróast mikið síðan þá og til dæmis er Guðrún löngu hætt að mynda danspör með að láta bjóða upp. „Það var bara ávísun á leiðindi, einelti og hundsun – nema fyrir þá sem voru vinsælastir.“

Í staðinn notar Guðrún mikið skiptidansa þannig pörin haldast ekki endilega saman út í gegnum dansinn eða stillir nemendum upp í hring, strákar í einn og stelpur í annan, þannig að pörin raðast handahófskennt saman. Sumir kennarar setja nöfn nemenda í skál og draga þannig saman.

„Það er gott að brjóta tímana upp með skiptidönsum. Það kennir umburðarlyndi gagnvart öllum, hvort sem það er sá vinsælasti eða sá sem á erfiðast.

Ég legg mikið upp úr kurteisi og að þau sýni hvert öðru virðingu. Við erum öll jafningjar. Er það eru til dæmis leiðindi eins og að vilja ekki leiða, þá ræðum við það.“

Hún hefur líka kennt nokkrum kynslóðum Austfirðinga að dansa. „Hér eystra er ég eiginlega kominn á þann stað að ég spyr: „Hvað heitir amma þín?“ Það er ekki lygi. Börnin segja við mig „Þú kenndir mömmu minni“ og ég kannast við hana en svo spyr ég um ömmuna. Ég er orðin fimmtug, búin að kenna í 32 ár og þetta er bara svoleiðis.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.