Gluggar úr fjármálaráðuneytinu í hreindýrasláturhúsinu

„Það komu kjötiðnaðarmenn að sunnan og unnu dýrin um helgar," segja hjónin Bergþóra Valgeirsdóttir og Eiður Gísli Guðmundsson, bændur á Lindarbrekku í Berufirði, sem hafa rekið hreindýrasláturhús samhliða búskap og ferðaþjónustu undanfarin þrjú ár.


Lindarbrekka er félagsbú sem þau Bergþóra og Eiður reka með foreldrum Eiðs, þeim Guðmundi Val Gunnarssyni og Margréti Eiðsdóttur. Eru þau með um 500 fjár og um 50 naut. Eiður og Valur hafa verið hreindýraleiðsögumenn í mörg ár og segir Eiður hugmyndina að sláturhúsinu hafa kviknað út frá því. Í raun er þó ekki um hreindýrasláturhús að ræða þar sem dýrin eru felld á fjalli og svo verkuð á Lindarbrekku.

„Hér er enginn maður með peningavit“
„Það hefur verið nóg að gera í leiðsögn og bara um að gera að nýta það og ná einhverjum peningum inn í heimabyggð,“ segir Eiður og Bergþóra bætir því við að þau hugsi sláturhúsið ekki einungis fyrir hreindýr, heldur einnig að þau hafi möguleikann á því að vinna þar ær- og nautakjöt.


Sláturhúsið er meðal annars byggt úr gámum og gluggar þess eru úr sjálfu fjármálaráðuneytinu. „Frændi okkar var að vinna við að rífa glugga úr fjármálaráðuneytinu en þeir eru óþarflega hirðusamir, hann og pabbi, þannig að gluggarnir eru komnir hingað austur og í sláturhúsið okkar. Hér er samt enginn maður með peningavit, þannig að þetta er allt í lagi,“ segir Eiður.

Sami kúnnahópurinn ár eftir ár
 „Það var nóg að gera hér á hreindýratímabilinu, okkur leiddist svo sannarlega ekki,“ segir Bergþóra, aðspurð um aðsókn í þjónustuna. „Það spilast þó auðvitað allt eftir því hversu mörg veiðileyfi eru á svæði sjö en við fáum flest okkar dýra þaðan. Reyndar erum við að fá inn menn sem eru að veiða á öðrum svæðum en hafa áður komið til okkar, af því þeir eru ánægðir með þjónustuna, þannig að þetta er mikið sami kúnnahópurinn ár eftir ár.“

Gistirými fyrir þrettán manns
Á Lindarbrekku er gistirými fyrir þrettán manns. „Við notum það eiginlega til þess að borga upp tapið af sauðfjárræktinni,“ segir Eiður og hlær. „Ætli það séu ekki þrjú ár síðan við fórum í það í einhverju rugli að breyta bílskúr sem ekkert var notaður, í gistingu. Í fyrrasumar ákváðum við svo að kaupa tvö sumarhús til viðbótar. Það hefur verið nóg að gera í þessu og bjargar því kannski að maður þarf ekki að vera að vinna mikið annars staðar þannig séð.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.