Orkumálinn 2024

Gleymdist að halda tónleikana í jólastressinu

Norðfirðingurinn Daníel Geir Moritz er aðalhvatamaðurinn að tónleikunum Jólastressi sem haldnir verða í Reykjavík eftir tíu daga. Daníel Geir heldur tónleikana í tilefni þess að tíu ár eru liðin síðan hann átti sigurlag í jólalagakeppni Rásar 2 og fær fleiri Austfirðinga í lið með sér.

Hinir Austfirðingarnir eru söngvararnir Einar Ágúst Víðisson frá Norðfirði og Eiríkur Hafdal frá Eskifirði auk þess sem Eskfirðingarnir Sturla Már Helgason og Birkir Skúlason eru í hljómsveitinni.

Daníel og Eiríkur störfuðu saman að jólalögunum Gjöfin mín ert þú og Jólastress sem unnu bæði jólalagakeppni Rásar 2.

„Við gerðum saman jólalög fimm ár í röð og hann söng þau öll. Hann hefur gert það sem mig hefur dreymt um að geta,“ segir Daníel Geir.

„Jólalögin voru gerð í jólastressi, mönnum var hrúgað í stúdíó og tekið upp. Svo gleymdist að halda tónleikana.“

Tónleikarnir verða með spjallþáttasniði þar sem söngvarar laganna setjast í sófann hjá Daníel Geir og segja spaugilegar sögur frá jólum og jólaundirbúningi. Meðal gesta verða Halldór Gylfason leikari og söngvari, Hreimur Örn Heimisson úr Landi og sonum og Karitas Harpa Davíðsdóttir sem vann þáttaröðina The Voice fyrr á árinu.

„Ég vildi búa til stóra jólatónleika sem væru þannig að ég skemmti mér. Þá varð þetta fyrir valinu,“ segir Daníel.

„Þetta verða öðruvísi jólatónleikar. Hátíðleikinn mun gjalda fyrir sprell. Fólk sem langað hefur á jólatónleika en ekki viljað fara á mjög hátíðlega tónleika mun njóta sín og fólk með áhuga á jólatónleikum fær tækifæri til að prófa eitthvað nýtt.

Það kemur ekki krúttlegur barnakór gangandi inn á sviðið né mun byrja að snjóa úr loftinu en þetta verður samt hrikalega skemmtilegt.“

Tónleikarnir verða tvennir í Tjarnarbíói laugardagskvöldið 9. desember.

Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.