„Fór af rælni á stígvélunum upp í fjall“

Eskfirðingurinn Kristinn Ársæll Þorsteinsson er meðal þeirra sem leiða göngur í gönguvikunni Á fætur í Fjarðabyggð sem lýkur um helgina. Kristinn hefur gengið á flest fjalla Austfjarða og í fórum hans er mikið og vandað ljósmyndasafn úr ferðunum.

„Árið 1986 fór ég af rælni á stígvélunum upp í fjall. Ég naut útsýnisins af hverri hæð og vildi alltaf meira þannig ég hélt áfram. Um hverja helgi fór ég síðan upp á nýtt og nýtt fjall. Þannig fékk ég þessa bakteríu,“ segir Kristinn í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Kristinn er alinn upp í Keflavík en kom austur á hverju sumri sem barn og unglingur enda móðir hans frá Eskifirði. Hann fluttist þangað sjálfur árið 1986.

„Ég fékk vinnu hér. Þetta var staður sem ég þekkti og líkaði alltaf vel,“ segir Kristinn en hann hefur verið þar síðan og starfar í dag sem gjaldkeri hjá Fjarðabyggð.

Hann segir fjallgöngurnar góða tilbreytingu frá vinnunni. „Ég nýt náttúrunnar, útsýnisins og líkamsræktarinnar. Ég er kyrrsetumaður í vinnunni og þessi hreyfing er gott mótvægi við það.“

Um það leiti byrjaði fjallaáhuginn að gera vart við sig. Síðan hefur Kristinn gengið á Hólmatindinn í tugi skipa og nú síðast í vikunni en hann leiðir göngur á fjöllin fimm.

Gönguvikan partur af tilverunni

Fjöllin fimm eru verkefni sem Ferðafélagið stendur fyrir en þau eru Hólmatindur, Goðaborg, Hádegisfjall, Kistufell og Svartafjall. Þeir sem ganga á fjöllin í vikunni fá nafnbótina Fjallagarpur Gönguvikunnar.

Gönguvikan er nú haldin í tíunda sinn og af því tilefni er leitað aftur til upprunans í dagskránni með að hafa upprunalegu fjöllin fimm í fjallagarpaleiknum.

„Gönguvikan er orðinn partur af tilverunni. Ég hef sjálfur gengið alla daga vikunnar, farið í allar lengri göngurnar. Það hefur reynst mér auðvelt fram að þessu en maður yngist ekki.“

Kristinn hefur meira gaman af því að ganga í sól en hann kvartar ekki þótt rigni. „Auðvitað er skemmtilegra að fara í góðu veðri en það er líka upplifun að fara í leiðinlegu.

Fólk er alltaf að takast á við fjöllin. Hver fjallganga skilur eitthvað eftir sig, hvort sem það er blíða eða slæmt veður. Fólk finnur til vellíðunartilfinningar eftir að hafa sigrast á sjálfu sér og fjallinu.“

Með breska sendiherranum í Veturhúsagöngu

Meðal þeirra sem notið hafa leiðsagnar Kristins var sendiherra Breta á Íslandi sem vildi fara sömu leið og 70 manna breskur herflokkur fór í janúar árið 1942. Flokkurinn fór upp frá Reyðarfirði, upp Svínadal og Tungudal yfir til Eskifjarðar og niður hjá Veturhúsum. Á leiðinni lenti flokkurinn í miklu óveðri.

Átta urðu úti, sem var mesti mannskaði sem breski herinn varð fyrir á Íslandi, en fjölskyldan í Veturhúsum vann mikið björgunarafrek og bjargaði hinum. „Þetta var mjög áhugaverð ganga. Ég dáist að því sem hann lagði á sig til að kynnast því sem þeir upplifðu,“ segir Kristinn um ferðina.

Kristinn segir sitt göngutímabil vera frá vori fram á haust. Þess á milli heldur hann sér í formi með að hjóla. „Ég hjóla gjarnan á Reyðarfjörð eftir vinnu og lengra um helgar. Ég fer oft af stað í slagviðri, mér finnst hressandi að hjóla í rigningu. Ég fer kannski ekki upp í fjall á sumrin ef það er rigning en hún aftrar mér ekki frá því að vera á hjólinu.

Það er alltaf eitthvað sem rekur mig af stað, ég kann ekki við að vera innilokaður heima. Ég vil fara út í ferska loftið, finna áreynslu. Maður fær endorfín af því að hlaupa og það fær maður líka eftir að hafa náð fjallstoppi.“

Alltaf með myndavélina tilbúna

En eitt af því magnaðasta sem liggur eftir úr ferðum Kristins er ljósmyndasafn hans. Þúsundum þeirra hefur hann komið inn á myndavefinn Flickr. „Ég byrjaði á þessu í árslok 2015. Ég er ekki á Facebook en mér var bent á Flickr og ég fór að tína bæði nýjar myndir og eldri sem mér leist á þangað inn.“

Kristinn segist hafa byrjað að mynda þegar hann bjó um tíma í Danmörku. „Þar hafði ég aðgang að myrkraherbergi. Þá tók ég í svarthvítu og framkallaði. Þar keypti ég mér fyrstu myndavélina.

Ég hef áhuga á að skrásetja ferðir og umhverfi. Mér finnst partur af því að ganga vera að taka myndir í leiðinni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.