Flutningur höfunda gefur ljóðunum nýja vídd

Litla ljóðahátíðin í Norðausturríki hefst í dag, en tilgangur hennar er að auka veg ljóðlistar á svæðinu og færa íbúum á Norður- og Austurlandi bestu skáld landsins í eigin persónu.


Hátíðin fer nú fram í fjórða sinn með viðburðum víða á Norður- og Austurlandi. Markmið hennar er að hvetja skáld á svæðinu til dáða og gefa þeim tækifæri á að koma fram með og mynda tengsl við þau skáld sem fremst standa á landsvísu.

Aðalgestir hátíðarinnar í ár eru þau Elísabet Jökulsdóttir, Eyþór Árnason og Soffía Bjarnadóttir. Öll hafa þau getið sér gott orð fyrir ljóðlist sína og verk þeirra vakið verðskuldaða athygli.

Auk þeirra munu síðan sérstakir gestir frá Finnlandi koma fram á þremur viðburðum af fjórum. Þar er um að ræða finnska ljóðskáldið Katariinu Vuorinen ásamt tónlistarfólkinu Olgu Välimaa and Kauko Röyhkä, en þau hafa auk þess að sinna tónlist einnig getið sér orð fyrir ritlist. Þau þrjú eru einmitt stödd hérlendis til að vinna saman að bók sem koma mun út 2017.

Einnig munu skáld úr hópi heimamanna koma fram á ýmsum viðburðum. Þeirra þekktust er eflaust Ingunn Snædal, en hún mun lesa upp með hópnum á Akureyri, þar sem hún er nýbúin að koma sér fyrir eftir dvöl erlendis.

Við Mývatn mun Ásta Kristín Benediktsdóttir lesa eigin ljóð og á Vopnafirði munu þeir Stefán Bogi Sveinsson og Þorsteinn Bergsson koma fram fyrir fyrrum sveitunga sína þar.


Hátíðin stendur á gömlum merg

Stefán Bogi Sveinsson er einn aðstandenda hátíðarinnar, en hann segir hana standa á gömlum merg eldri hátíða.

„Hátíðin er eiginlega tekin í arf frá hátíðum sem haldnar höfðu verið í Eyjafirði. Einn skipuleggjenda þeirra var maður að nafni Hjálmar Stefán Brynjólfsson. Hann er lögfræðingur, gamall spurninga- og ræðukeppnismaður og ljóðaunnandi. Ég ákvað að það væri eiginlega fráleitt að við værum ekki vinir miðað við allt það sem við ættum sameiginlegt. Svo það varð bara niðurstaðan. Við vorum sammála um að hátíðina ætti að stækka og efla, niðurstaðan varð síðan þessi og við höfum ekki litið um öxl síðan.

Við höfum prófað ýmislegt undanfarin ár og alltaf leitað að nýjum stöðum til að halda viðburði. Það má segja að umfangsmest hafi hátíðin orðið í fyrra, en þá voru viðburðir allt frá Hala í Suðursveit að Hjalteyri í Eyjafirði. Við förum ekki svo víða í ár, en nú verðum við reyndar í fyrsta sinn á Vopnafirði og við Mývatn. Svo við reynum alltaf að koma með eitthvað nýtt.

Verkefnið hefur líka þróast þannig að hluti hátíðarinnar, ljóðagöngur í skógi, verða nú haldnar sérstaklega, síðar í haust. Þá má kannski segja að það verkefni sé komið í heilhring. Það er í raun elsti viðburðurinn og á sér um 15 ára sögu. Þær urðu síðar hluti af Litlu ljóðahátíðinni en öðlast nú aftur sjálfstætt líf í nýju samhengi. Það verður mjög spennandi að vinna með þetta áfram.“

Mikilvægt að skapa tengingar

Stefán Bogi segir sér þykja mikilvægt að skapa tengingar. „Tengingar milli skálda víða að á landinu, tengingar milli ljóðaunnenda og skálda og tengingar milli menningarlífsins á ýmsum landshornum. Við viljum gefa fólki kost á að kynnast þessum fremstu skáldum okkar í eigin persónu. Það er tvennt ólíkt að lesa ljóð eða heyra þau flutt. Að heyra höfund flytja eigin ljóð gefur þeim alveg nýja vídd og það er þetta sem við viljum gefa fólki á þessu svæði kost á að upplifa. Svo er þetta líka gert fyrir okkur sjálfa. Við viljum lifa of hrærast með listinni. Ég held við séum báðir þannig að við þurfum á því að halda. Svo að þó að það sé mikil vinna á bak við svona hátíð, þá fáum við eitthvað út úr því sjálfir. Og vonandi geta einhverjir aðrir líka fengið að njóta þess með okkur.“

Viðburðir eru eftirfarandi:

Fimmtudagur:

  • 20:00 Ljóðakvöld í Valaskjálf, Egilsstöðum

Föstudagur:

  • 12:00 Súpa og ljóð í Kaupvangskaffi, Vopnafirði
  • 20:00 Ljóðakvöld í Fuglasafni Sigurgeirs, Neslöndum við Mývatn

Laugardagur:

  • 17:00 Ljóðadagskrá í Deiglunni, Listagilinu á Akureyri

Tilvalið er að fylgjast með hátíðinni hér

Mynd: Þórdís Gísladóttir les upp á Litlu ljóðahátíðinni 2015. Jón Sigurðsson fylgist íbygginn með. SBS

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.