„Finnst ég hafa grætt nokkrar klukkustundir í hverjum sólarhring“

Söng- og knattspyrnukonan Greta Mjöll Samúelsdóttir er starfandi íþróttaþjálfari á Djúpavogi og tuskar bæjarbúa einnig til í skemmtilegum þrektímum.



Greta Mjöll og maðurinn hennar, William Óðinn Lefever fluttu á Djúpavog ásamt dóttur sinni Regínu Önnu Lefever í september síðastliðinn.

„Þetta atvikaðist þannig að maðurinn minn rak augun í atvinnuauglýsingu frá Djúpavogshrepp sem okkur þótti skemmtilega fyndin og talaði bókstaflega til okkar.

Þar var auglýst eftir íþrótta- og æskulýðsfulltrúa en inntak auglýsingarinnar var það hvort við værum ekki orðin þreytt á því að bíða á rauðu ljósi og hvort við vildum ekki komast burt úr borginni og stressinu.

Það fyndna var að við höfðum í nokkurn tíma rætt hvort ekki væri sniðugt að það að prófa að búa annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu, maður hefði nú gott af því að kynnast landsbyggðinni. Allt þetta í bland orsakaði það að hann sótti um og er íþrótta- og æskulýðsfulltrúi á Djúpavogi í dag,“ segir Greta Mjöll.


Mikill metnaður fyrir góðri heilsu

Ekki var um 100% starf að ræða þannig að William er einnig framkvæmdastjóri Neista og stuðningsfulltrúi í leikskólanum.

Greta Mjöll réð sig sem íþróttaþjálfara hjá Neista og kennir skólaíþróttir fyrir hádegi og er með íþróttaæfingar eftir hádegi. Einnig var hún að fara af stað með þrektíma fyrir bæjarbúa nú í janúar.

„Ég fann fyrir miklum áhuga fyrir því að einhver tæki að sér að vera með skipulagða þrektíma fyrir íbúa og nokkrir snillingar urðu þess valdandi að ég lét verða af þessu.

Svo var bara heljarinnar skráning og þetta hefur gengið voðalega vel hingað til. Það er greinilega mikill metnaður hér fyrir því að vera hraustur og í góðu formi, það er voða gaman hjá okkur.“


Hvar er Djúpavogur eiginlega?

Greta Mjöll segir foreldra og vini hafa verið nokkuð hissa þegar þau greindu frá áformum sínum um flutninga.

„Foreldrar mínir voru ósáttust, enda fórum við með glænýtt barnabarn. En þegar við kynntum þetta fyrir þeim sáu þau að þetta var okkar hagur, ef við ætlum að koma almennilega undir okkur fótunum þá er eina leiðin að fara út á land, ekki leggur maður til hliðar á höfuðborgarsvæðinu.

Við fengum einnig reglulega spurninguna hvar Djúpavogur væri og ég sjálf hefði líklega ekki getað bent á staðinn á korti fyrir ári.

Það er ákveðin þröngsýni að segjast ekki getað hugsað sér að búa annarsstaðar en á höfuðborgarsvæðinu ef þú hefur ekki prófað það. Ég verð að búa út á landi til þess að geta staðhæft eitthvað svoleiðis og með þá reynslu get ég tekið upplýsta ákvöruðun hvar hentar mér og minni fjölskyldu best að vera.“


Seinniparturinn nýji uppáhalds tíminn

Greta segir fjölskyldunni líða mjög vel á Djúpavogi og þau sjái svo sannarlega ekki eftir þessari ákvörðun sinni.

„Við erum alsæl og mér finnst ég hafa grætt nokkrar klukkustundir í hverjum sólarhing sem ég eyði með litlu fjölskyldunni minni síðan við fluttum hingað.

Þetta er svo dýrmætt og nýi uppáhalds tíminn minn er milli klukkan fjögur og sex á daginn, tími sem flestir hata, en nú nýt ég tímans sem hefur yfirleitt farið í bílasnatt og vesen.

Hér notum við bílinn lítið sem ekkert og mér finnst það æðislegt. Ég bara labba og sæki dóttur mína á leikskólann, labba í búð, spjalla við fólk og á tíma með dóttur minni. Það er ekkert stress eða vesen.“


Vildi ekki taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu

Greta Mjöll segir lífið á Djúpavogi akkúrat vera það sem hún hafi verið að leita að með lítið barn.

„Þetta er eiginlega fáránleg hönnun – það er ætlast til þess að þú sért að gera allt á sama tíma, eiga börn, kaupa hús, byggja upp starfsframa, stofna fyrirtæki, vera í góðu formi, vera góður maki, gefa út bók og ég veit ekki hvað og hvað. Samkvæmt þessu væri best að eiga börn um fimmtugt!

Ég vil ekki taka þátt í þessari vitleysu, heldur fá að njóta þess að vera með börnunum mínum, ég get alveg gefið út bók síðar, en tíminn líður svo hratt.“

Hér eru allir með innbyggða gestrisni

Hvað sér litla fjölskyldan fyrir sér að vera lengi fyrir austan?

„Það er bara ráðið til eins vetur í senn í skólakerfinu, en við ætlum svo sannarlega ekki að flytja svona langt til þess að fara strax til baka.

Nú er bara hversdagslífið framundan og mikið óskaplega hlakka ég til. Ég hef nú aldrei verið góð í því að hafa lítið að gera, þannig að ætli ég endi ekki bara „í öllu“ eins og vanalega, ég hefði allavega ekkert á móti því.

Svo kemur sumarið og ég hlakka ég gríðarlega til að upplifa fyrsta sumarið okkar hérna fyrir austan – sagan segir að það sé frábært.

Ég nýt þess að vera hérna, umhverfið og náttúran er yndisleg og móttökurnar hafa verið alveg gríðarlega hlýjar og greinilegt að hér eru allir með innbyggða gestrisni, ungir sem aldnir. Okkur hefur liðið óskaplega vel hér frá fyrstu heimsókn.“

Ljósm: Anton Bjarni Alfreðsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.