Fimm Austfirðingar í Biggest Loser Ísland

Fimm Austfirðingar eru meðal þeirra tólf sem skráðir til leiks í fjórðu þáttaröðinni af Biggest Loser Ísland sem fer í loftið í kvöld.

Austfirðingarnir eru Daria Richardsdóttir frá Eskifirði, Svanur Áki Ben Pálsson frá Breiðdalsvík, Hjörtur Aron Þrastarson frá Reyðarfirði, Eygló Jóhannesdóttir frá Egilsstöðum og Arna Vilhjálmsdóttir úr Neskaupstað.

Matarræðið erfiðast

Í kynningu á Örnu segist hún hafa sótt tvisvar um áður að taka þátt í Biggest Loser. Hún hafi fylgst með þáttunum sem höfði til hennar þar sem hún sé með mikið keppnisskap.

Hún segist hafa tekið þátt í öllum þeim íþróttum sem í boði voru í Neskaupstað sem barn en byrjað að þyngjast á unglingsárunum þegar hún fór í heimavistarskóla þar sem hún þekkti fáa. Matarræðið er samt það sem helst hefur háð henni.

„Árið 2014 tók ég mig alveg verulega á en þyngdist aftur því ég náði aldrei að koma matnum í lag, það hefur alltaf verið mitt vesen. Ég hef alveg prófað ým­islegt og ég ætlaði að komast í þetta því ég ætlaði að láta þetta virka,“ seg­ir Arna.

Hvattur áfram af frænku

Svanur Áki segist hafa verið hvattur til þátttöku af frænku sinni. Þættirnir voru teknir upp í sumar og segir Svanur að það hafi verið erfiðast að fá ekki að hitta fjölskylduna sína á meðan. Eins hafi hann fengið fráhvörf frá öllu „sykurdraslinu“ sem hann hafi borðað.

Hann hefur áður reynt ýmislegt til að koma sér í betra form en það gengið misjafnlega. „Ég hef aldrei náð að fara eitt­hvað „all in,“ hafði ekki verið nógu duglegur. Maður náði kannski að byrja vel en svo endaði það kannski bara á að maður var í vinnutörn og þá var maður ekki að byrja aft­ur eft­ir vinnutörnina.“

Var orðið erfitt að gera ýmsar hreyfingar

Eygló segist hafa skráð sig til þátttöku því hún hafi ekki náð neinum árangri sjálf. Hún hafi reynt að breyta matarræðinu og hreyfa sig meira en það ekki skilað þyngdartapi.

Hún kveðst hafa þyngst smátt og smátt frá 16 ára aldri en alltaf verið kröftug og liðug þar til dag einn að hún áttaði sig á að hún væri það ekki lengur.

„Þegar ég var búin að vera í fæðingarorlofi með strákinn minn þá áttaði ég mig allt í einu á því að það var bara orðið erfitt að beygja sig niður og klæða sig í sokka og reima skóna og ég var farin að eiga í erfiðleikum með alls konar hreyfingar.

Ég var einhvern veginn ekkert að spá svo mikið í þessu, þetta var ekkert að hafa svo mikil áhrif á mig, á sjálfsálit mitt.

Mér hefur alltaf liðið rosalega vel í eigin líkama og það var ekki fyrr en að ég áttaði mig á því að ég væri kannski mögu­lega að verða það feit að ég væri kannski bara að verða sjúklingur. Það er eitt­hvað sem mig langar alls ekki, það er mín mesta hræðsla að verða bara sjúkling­ur út af offitu.“

Til leiks í ár mæta sex karlar og sex konur sem keppast um að missa sem mesta þyngd. Þeim er skipt í tvö lið undir forustu sitt hvors þjálfarans. Þáttaröðin að þessu sinni er tekin upp á Bifröst í Borgarfirði vestra. Í fyrsta þættinum kynnast áhorfendur keppendum og bakgrunni þeirra, fylgjast með fyrstu æfingunum. Í lok hvers þáttar er einn þátttakandi sendur heim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.