Orkumálinn 2024

„Ferðin verður metin til eininga“

„Vonir standa til þess að ferðin heppnist vel og í framhaldinu verði hægt að standa fyrir ferð sem þessari á hverju ári,“ segir Gísli Björn Helgason, formaður Bindindismannafélags Menntaskólans á Egilsstöðum, en félagið er á leið til Rómar í mars.



Bindindismannafélag Menntaskólans á Egilsstöðum (BME) var endurvakið haustið 2015.

„Markmið þess er að sporna við ótímabærri og óhóflegri áfengis- og tóbaksneyslu á meðal nemenda og skapa þannig jákvætt og vímuefnalaust umhverfi í skólanum. Liður í þeirri áætlun er skipulagning þessarar ferðar,“ segir Gísli Björn, sem á hugmyndina að ferðinni ásamt Benedikt Burkna Hjarðar, meðlimi í BME.

Ferðamöguleikar nema hafa einskorðast við útskriftaferðina


„Við höfum í gegnum skólagöngu okkar rætt mikið um þá ferðamöguleika sem standa nemendum skólans til boða og þar til nú hefur hin umdeilda útskriftarferð verið eina skipulagða ferðin á vegum nemenda í skólanum. Hafa þær nær eingöngu verið stílaðar á vinsælar baðstrendur þar sem næturlífið er fjörugt, en það þótti okkur ekki heillandi, en hugur okkar liggur frekar til borga sem eru hlaðnar menningarlegum og sagnfræðilegum gildum.“

Gísli Björn ákvað, sem sitjandi formaður félagsins, að sníða þessa hugmynd að allsherjar menningarferð á vegum Bindindismannafélagsins og bjóða þannig öðrum nemendum skólans að kynnast framandi menningu í vímuefnalausu umhverfi.

„Skólayfirvöld sýndu ferðinni mikinn stuðning og ákveðið var að hafa hana á fardögum, þar sem hefðbundin kennsla er felld niður og láta hana þannig gilda til einnar einingar. Einnig mun skólinn leggja til einn starfsmann í ferðina. Meðlimir BME kusu um áfangastað og Róm, með sögu sinni og óteljandi menningarverðmætum, varð fyrir valinu. Við leituðum síðan til Hannibals, hjá FA Travel, sem hjálpaði okkur að finna flug og gistingu. Mikill fjöldi nemenda sýndi ferðinni áhuga í byrjun, eða um 80. Nú eru 23 skráðir í ferðahópinn, þar af átta nýnemar. Til að efla dagskrá ferðarinnar og fjármagna flugkostnað höfum við leitað eftir styrkjum frá áhugasömum fyrirtækjum en sú leit hefur lítinn árangur borið.“


Mesta brottfall félagsins meðal nýnema

Gísli Björn segir að sú ákvörðun hafi verið tekin að leyfa öllum áhugasömum nemendum innan skólans að slást með í för félagsins að þessu sinni, gegn því að skrifa undir samning um bindindismennsku meðan á henni stendur.

„Stefnt er að því í framtíðinni að einungis meðlimir BME eigi kost á að fara með í ferðina. Þannig er ferðin hugsuð sem gulrót fyrir nemendur á fyrsta námsári til að halda sér frá áfengi og vímuefnum og njóta þess í stað menningar og lista í framandi löndum.“

Í Bindindismannafélaginu eru nú um 40 meðlimir, en 22 nýnemar skráðu sig í félagið á aðalfundi í upphafi skólaárs. Í kjölfarið var kosin fimm manna stjórn.

„Um miðbik skólaársins hefur mesta brottfall meðlima félagsins verið úr hópi nýnema. Markmiðið hefur verið sett á að bjóða upp á nýjan Iphone síma sem aðalvinning í lok skólaársins, en til að komast í þann pott verða nemendur að hafa skráð sig í edrúpottinn í að minnsta kosti fjögur skipti af fimm skólaböllum. Með þessu er vonandi hægt að fjölga nýnemum sem skrá sig í félagið og að sama skapi draga úr brottfalli þeirra úr félagsskapnum.“

Á ljósmyndinni má sjá hluta ferðahópsins.  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.