Orkumálinn 2024

„Fatasóun er stórt vandamál sem varðar okkur öll“

„Hugmyndin um að hafa fatamarkað hefur verið að gerjast í vetur,“ segir Gerður Guðmundsdóttir, kennari við Verkmenntaskóla Austurlands, en nemendur í vistfræðiáfanga við skólann standa fyrir fatamarkaði og fyrirlestri um fatasóun í skólanum á morgun.


„Verkmenntaskóli Austurlands er þátttakandi í Grænfánaverkefninu sem er alþjóðlegt verkefni sem hefur það markmið að stuðla að menntun í sjálfbærni og umhverfisvernd. Við höfum gert eitt og annað undanfarið til vernda umhverfið. Við eru til dæmis farin að flokka allt okkar rusl, notum umhverfisvænar hreingerningavörur og pappír, erum hætt að hafa í boði einnota glös og nú ætlum við að vekja athygli á „fataneyslu“ og fatasóun,“ segir Gerður.

Markaðurinn verður í setustofu skólans á morgun miðvikudag, milli 14:00 og 17:00. Þar verður hægt að koma með föt, skipta á fötum og/eða kaupa ódýr föt.

Ágóðinn rennur til Unicef
Gerður segir að nemendur í vistfræði hafi í vetur unnið ýmis verkefni sem tengjast umhverfinu og umhverfsivernd. „Þau hafa sýnt þessum málum mikinn áhuga og vildu gjarnan leggja sitt af mörkum í þessum efnum og því lá beinast við að þau myndu leiða þetta verkefni. Nemendurnir ákváðu að ágóðinn af markaðnum skyldi renna til Unicef, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og vildu með því tengja saman gott málefni og vistfræði.

Umræðuefnið er hvernig nútímalífsstíll okkar hefur í för með sér umhverfisvandamál og hvað við getum gert í því? Eitt af því sem við getum gert er að hugsa hnattrænt en grípa til aðgerða heimafyrir. Hver Íslendingur kaupir mikið magn af fötum og öðrum textílvörum og stór hluti þess endar í ruslinu. Fatakaup eiga stóran þátt í vistspori hvers einasta heimilis og því skiptir miklu máli hvernig fólk hagar sér í þessum efnum.

Til gamans má geta að fyrir fyrir þorrablótið í vetur vorum við að ræða fatanýtingu í starfsmannahópnum, hvað við eigum það til að kaupa okkur föt án þess að okkur vanti þau endilega. Sú umræða leiddi til þess að nokkrir fóru í að skipta á fötum í stað þess að kaupa sér föt fyrir blót. Fatasóun er stórt vandamál sem varðar okkur öll,“ segir Gerður.

Áhugaverðir fyrirlestrar með Stefáni Gíslasyni
Í tenglsum við fatamarkaðinn mun Stefán Gíslason umhverfisstjórnunar-fræðingur hjá Umhverfisráðgjöf Íslands halda opinn fyrirlestur um fatasóun þar sem farið verður yfir umhverfisáhrifin sem fataframleiðsla hefur í för með sér og endurnýtingu á textílvörum. Nefnist erindið „Tvisvar í sömu fötunum – er það í lagi“. Allir eru velkomnir og hefst hann klukkan 12:30.

Fyrirlesturinn er í samstarfi við Náttúrstofu Austurlands sem stendur að fyrirlestrinum með styrk frá SÚN. Stefán mun svo halda annað erindi sem nefnist „Plastið? – Rafbílarnir? - Fatasóunin? Hvað get ég gert?“ annað kvöld klukkan 20:00. Báðir fyrirlestrarnir verða í stofu eitt í Verkmenntaskólanum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.