Er saga Jóns Loftssonar í Valþjófsstaðarhurðinni?

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur leiðir að því líkur í nýrri bók sinni, Leitin að klaustrunum, að einn merkasti forngripur Íslendinga, hurðin frá Valþjófsstað í Fljótsdal, sé upprunnin á Suðurlandi. Í útskurði hennar sé að finna sögu af baráttu Jóns við ofríki Páfagarðs.

Það eru bæði ættartengsl og táknmyndir sem renna stoðum undir þessa kenningu Steinunnar sem hún útskýrir í viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Jón Loftsson, Odda á Rangárvöllum, var einn mesti höfðingi Íslendinga á ofanverðri tólftu öld. Barnabarnabarn hans var Randalín Filippusdóttir sem bjó á Valþjófsstað en henni hefur löngum verið eignuð hurðin.

Steinunn hafnar hins vegar kenningum um að Randalín hafi skorið hurðina út. Þess í stað heldur hún því fram að í hurðina sé skorin út saga Jóns.

Í útskurðinum segir frá riddara sem bjargar ljóni frá dreka. Ljónið þakkar lífgjöfina og fylgir riddaranum það sem eftir er og grætur við gröf hans. Jón leiddi íslenska í staðarmálum fyrri þegar þeir börðust gegn skipunum frá Páfagarði.

Bjargaði þjóðinni frá erlendum yfirráðum

Steinunn hefur rýnt í táknmyndir hurðarinnar með Aðalheiði Guðmundsdóttur, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. „Hún segir að drekinn sé iðulega mynd græðginnar og væri því tákn Páfagarðs. Jón væri konungurinn eða riddarinn og ljónið íslenska þjóðin sem Jón bjargaði frá erlendum yfirráðum,“ segir Steinunn sem telur að afkomendur Jóns hafi látið gera útskurðin til að varveita sögu höfðingjans.

„Það er vel þekkt að útskurður sem þessi vísar oft í lífshlaup viðkomandi. Það þekkjum við úr rúnasteinunum í löndunum í kringum okkur en hér eigum við enga slíka.“

Steinunn segir þá Austfirðinga sem hún hafi rætt við hafa tekið kenningunni vel, Sunnlendingar hafi þó fagnað henni mest. Hún sé þó með þessu engan veginn að taka Valþjófsstaðarhurðina af Austfirðingum.

„Ég vil það alls ekki. Ég held mikið upp á hana, þegar ég stýrði Minjasafni Austurlands byggðum við merki safnsins á útskurðinum úr hurðinni. Mér finnst hún vera í flokki með handritunum. Ef saga Jóns Loftssonar, sem braut á bak útþenslustefnu páfa hér norður frá er í henni, þá er það enn merkilegra. Hún er samt alltaf og verður Valþjófsstaðarhurðin, þar var hún lengst.“

Klaustrin stórar þjónustustofnanir

Bók Steinunnar hefur fengið frábærar viðtökur og meðal annars tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka. Með henni heldur hún áfram rannsóknum sínum á íslenskum klaustrum en Steinunn stýrði uppgreftrinum á Skriðuklaustri á árunum 2002-2012.

Þótt bókin fjalli ekki um Skriðuklaustur er þar þó að finna nýjar upplýsingar um klaustrið. Þar segir til dæmis frá því að búið sé að greina leirbrot sem reynst hafi vera úr lúðri eða gjallarhorni sem notað var til að kalla til tíða. Talið er að hornið hafi komið hingað frá Þýskalandi.

„Hornin voru yfirleitt helguð ákveðnum dýrlingi og í þau var blásið til að kveða niður pest eða vont veður. Úr þeim bárust ægileg óhljóð og það hefur verið merkilegt að heyra blásið í það á Skriðuklaustri,“ segir Steinunn.

Siðaskipti frekar en siðbót

Ekki er ljóst að hvaða rannsóknum Steinunn snýr sér næst. Hún hefur haft hug á að grafa upp Þingeyrarklaustur, það sem starfaði lengst, en það er kostnaðarsamt og til þess hefur ekki fengist fjárveiting.

Á meðan hefur hún hug á að kanna aflífanir eftir siðaskiptin. Segja má að það sé viðeigandi þar sem á nýliðnu ári voru 500 ár liðin síðan Lúther negldi yfirlýsingu sína á þýska kirkjuhurð svo úr varð nýr stofn kristni.

„Kaþólska kirkjan leyfði ekki líkamlegar refsingar heldur seldi aflátsbréf sem fólk gat keypt til að borga fyrir syndir sínar. Eftir siðaskiptin koma til líkamlegar refsingar. Þess vegna vil ég tala um siðaskipti en ekki siðbót.

Það er talað illa um aflátssöluna en við tók kerfi sem var enn hræðilegra að mínu mati. Klaustrin græddu og hlóðu undir sig gersemum en það eru engin dæmi um að einstaklingarnir sjálfir hafi efnast, stofnunin sjálf átti allt. Þá má allt eins tala um græðgi eftir siðaskiptin, Danakonungur hirti dýrgripina og jarðirnar og umboðsmenn hann settust á jarðirnar og sáu um að framfylgja refsingunum.

Almúginn fór verst út úr þessu. Eftir siðaskipti var enginn spítali á landinu og með klaustrunum hurfu stofnanir sem menntuðu fólkið.“

Saga Sunnevu

Rannsóknir á aftökustöðunum tengja Steinunni enn og aftur við Austurland. Skriðuklaustur kemur þar við sögu í svokölluðu Sunnevumáli. Sunneva ólst upp við Borgarfjörð eystra en var dæmd til dauða fyrir sifjaspell. Hún var send til Hans Wiium, sýslumanns sem þá sat á Skriðuklaustri. Hann framfylgdi líflátsdóminum ekki strax en að því kom að Sunneva var aftur dæmd fyrir sifjaspell og þá virðist dóminum hafa verið framfylgt.

„Fólk var yfirleitt jarðað á staðnum. Fyrir nokkrum árum fundust bein í Bessastaðaárgilinu. Ég veit ekki hvort það voru hennar bein, þegar ég fór að leita á Þjóðminjasafninu fundust þau ekki.“

Steinunn bendir á að staðir þar sem konur voru grafnar eftir að þeim hafi verið drekkt séu enn lítt rannsakaðir. „Það var settur poki yfir þær áður en þeim var fleygt í hylinn og þær síðan grafnar í pokanum. Ég vil draga fram sögu sem er falin og þögguð og rétta hlut þessa fólks með að skrá þessa staði. Með afbrotum sínum missti fólkið réttinn til að hvíla í kirkjugarði. Þetta er ólíkt klaustrunum því þar áttu allir skjól.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.