„Einungis maður sjálfur getur gert sig heilan“

Maður afgreiðir ekki tilfinningar með því að troða þeim ofan í poka og henda þeim frá sér heldur þarf maður að fá tíma til þess að vaxa út úr þeim,“ segir Kristín Atladóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, sem var í opnuviðtali Austurgluggans í síðustu viku.


Kristín er frá Reykjavík þar sem hún hefur búið mestan hluta ævi sinnar, en lengst af starfaði hún í kvikmyndageiranum. Hún er með BA og mastersgráðu í leikhúsfræðum, meistaragráðu í nýsköpun og frumkvöðlafræðum og doktorpróf á sviði menningar-, réttar- og kerfishagfræði.

Eftir erfiða tíma þráði Kristín að komast út á land og er hún enn á Austurlandi þremur árum síðar, búsett á bæ sínum Hólshjáleigu í Hjaltastaðaþinghá.

Alin upp í mikilli pólitík
„Ég kem úr sterkri verkalýðsbaráttufjölskyldu en ég átti sérstök skrúðgönguföt og fór í fleiri skrúðgöngur en flestir þegar ég var barn, eða það kallaði ég þær. Ég man varla eftir mér öðruvísi en á öxlunum á föður mínum með spjöldin á lofti. Veit ekki hversu gömul ég var þegar ég þrammaði mína fyrstu Keflavíkurgöngu.“

Kristín segir fjölskyldu sína vera sterka kvennafjölskyldu. „Það voru konurnar í kringum mig sem voru alltaf leiðandi, þó svo móðurafi minn hafi verið höfuð fjölskyldunnar, mjög pólitískur og barðist mikið í Dagsbrún og á fleiri vígstöðvum. Ég er því alin upp í afskaplega mikilli pólitík, var mjög vinstrisinnuð og er nú sjálf farin heilan hring í þeim efnum og er að verða kommúnisti aftur, alvöru kommúnisti.“


Skilyrðislaus ást og athygli föður
Hún segir föður sinn þó vera þann einstakling sem mótaði sig mest; „Ég fékk skilyrðislausa ást og athygli föður míns, enda hans eina barn og langyngst. Það varð til þess að mér þótti eðlilegt að vera elskuð og elskuð af karlmönnum. Vegna þessa hef ég getað átt í samskiptum við bæði kynin gegnum tíðina á mínum eigin forsendum en hef ekki haft þörf fyrir að leita samþykkis karlmanna eða ganga í augun á þeim með einum eða öðrum hætti til þess að öðlast þeirra viðurkenningu. Ég fékk svo mikinn styrk í þessu frá föður mínum, þetta var mér svo eðlilegt og sjálfsagt – mér finnst alveg ómetanlegt að ég hafi aldrei efast um að ég væri elskuverð. Ég sé þessi dæmi oft hjá konum í kringum mig, til dæmis hjá systur minni sem nú er látin. Hún átti ekki föður og þó svo hún væri óskaplega sterk og afburðagreind kona var alltaf einhver vöntun til staðar, einhver viðurkenningar- eða staðfestingarþörf frá karlmönnum í raun og veru.“

Skilnaðurinn það erfiðasta
Kristín á tvö börn, auk þess sem fyrrverandi maður hennar og barnsfaðir yngra barnsins átti son sem lést í bílslysi aðeins 13 ára gamall. Það reyndist fjölskyldunni að vonum afskaplega þungbært erfitt. Kristín skildi svo nokkrum árum síðar.

„Skilnaðurinn er það allra erfiðasta sem ég hef tekist á við í lífinu og mótað mig mikið. Nú hef ég misst marga: föður minn, stjúpson, systur og vini. Það er ákveðin tegund þolraunar með ofboðslegum sársauka og sorg. Dauði er þó á einhvern hátt náttúrulegt fyrirbæri þar sem þú lendir á ákveðnum punkti þaðan sem hægt er að fara að byggja upp. Sorgin og söknuðurinn eru gífurleg en tilfinningarnar eru hreinar, þó ýmsar tilfinningar hrærist með manni eru þær sem snúa að einstaklingnum sem hvarf á brott óspilltar frá þeirri stundu. Eins og Tómas Guðmundsson segir svo fallega í lokahendingu erfiljóðs síns um Jón Thoroddsen: Sem sjálfur Drottinn mildum Iófum lyki um lífsins perlu í gullnu augnabliki.

Skilnaðurinn reyndist mér svo ofboðslega erfiður og sár en hann fól í sér langt niðurrif sem virtist engan enda ætla að taka. Líklega vegna þess að á vissan hátt voru enn miklar og sterkar tilfinningar í gangi, auk þess sem búnir voru til óþarfa erfiðleikar með óþarfa sársauka. Svo skemmir þetta út frá sér, hefur áhrif á börnin sem upplifa vantraust á foreldra og lífið sjálft, á þá hluti sem þau töldu örugga en bregðast.“

„Ég byggði því ekkert upp, þetta var bara sorgarferli sem tók langan tíma. Þetta var bara eins og þegar drengurinn lést, tíminn bara leið og svo fóru að koma augnablik yfir daginn þegar maður gat hugsað um eitthvað annað en sá tími lengdist smátt og smátt. Þetta var bara nákvæmlega sama ferli, nema því fylgdi reiði, tortryggni, gremja. Allt slæmar, en umfram allt tilgangslausar tilfinningar. Maður afgreiðir ekki tilfinningar með því að troða þeim ofan í poka og henda þeim frá sér heldur þarf maður að fá tíma til þess að vaxa út úr þeim. Manni farnast ekki vel nema að vera heill, og einungis maður sjálfur getur gert sig heilan. Það er sannfæring mín.“
Ljósmynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.