Einar Bragi: Þessi bær er búinn að gera ýmislegt fyrir mig

Einar Bragi Bragason hefur verið áberandi í tónlistarlífi Austfirðinga undanfarin 20 ár en hann hefur blásið í saxófóninn sinn við ótal tækifæri síðan hann fluttist austur til að stýra tónlistarskóla Seyðisfjarðar. Hann stendur nú á krossgötum í lífinu, fluttist frá Seyðisfirði til Vopnafjarðar síðsumars en varð í skyndingu skólastjóri tónlistarskóla Vesturbyggðar.


„Áður en ég flutti hafði ég einu sinni komið á Seyðisfjörð til að spila með Stjórninni. Í minningunni var það eins og að koma til Costa del Sol. Það var Austfjarðablíðan, blankalogn og Reykvíkingurinn hafði aldrei kynnst svona veðri á Íslandi,“ segir Einar Bragi í viðtali sem birtist í Austurglugganum í síðustu viku.

Einar kannaðist við þáverandi tónlistarskólastjóra á Seyðisfirði, Kristrúnu Helgu Björnsdóttur, frá gamalli tíð og fékk frá henni hvatningu til að koma austur. Hann segist hafa fengið hlýjar móttökur þegar hann kom austur.

„Þorvaldur Jóhannsson var þá bæjarstjóri og tók á móti mér. Kerfið þá var ekki jafn Excel-vætt og það er í dag. Það voru engar flóknar fjárhagsáætlanir, allt fór meira eftir hvort það var mikið af skipum að landa. Þorvaldur spurði mig einhvern tímann hvort það vantaði eitthvað í skólann. Hann bað mig um að láta vita ef svo væri en bætti við að betra væri að bíða því það væri fullt framundan í löndunum.“

Tilviljun að lenda í löggunni

Einar Bragi gerði meira en að spila tónlist eystra. Hann var til dæmis afleysingalögga í nokkur ár. „Ég var að koma af Héraði eftir gigg en festi mig á Fjarðarheiðinni. Einhver bjargaði mér þaðan en fór með bílinn niður á lögreglustöð til að þurrka hann. Þegar ég er að labba heim í 66°N kuldagalla með spariskóna í vinstri hendi fer viðvörunarbjalla í gang í apótekinu.

Sigurjón Guðmundsson, lögga og vinur minn, biður mig um að bíða þar meðan hann finnur apótekarann. Það fór allt farsællega en Sigurjón kom til mín á eftir og sagði við mig: „Þegar þú ert ekki að spila ertu yfirleitt rólegur, ertu ekki til í að vera afleysingalögga?“ Ég hafði aldrei prufað það en var til.

Það gat verið helvíti gaman, fór mikið eftir vinnufélögunum. Það var oft góður húmor á vöktunum og við stundum að hrekkja hvern annan. Síðustu árin áður en ég hætti mátti ekki orðið neitt. Ég held að allir sem hafi unnið við þetta í nokkurn tíma viðurkenni það.

Þetta var hins vega lífsreynsla. Maður tók þátt í grenjandi fyndnum hlutum niður í jafn hræðilega og sjálfsmorð. Þetta var öll flóran. Í þá daga var engin áfallahjálp, menn bara töluðu saman um hlutina.“

Hikaði ekki við að hjálpa til

Einar Bragi var líka formaður skíðadeildar Hugins og sat í stjórn knattspyrnudeildarinnar. Þá var hann einn af þeim sem kom að sameiningu skíðadeildanna sitt hvorum megin Fjarðarheiðarinnar í Skíðafélagið í Stafdal (SKÍS). „Ég hikaði ekki við að reyna að hjálpa öllum sem ég gat utan skóla. Maður lærði að maður kaupir ekki skemmtunina í Bónus. Það verður að búa hana til.

Það voru forréttindi að ala upp krakka hér og bærinn kom vel fram við mig. Þegar sonur minn mölbraut á sér lappirnar í skíðaslysi fór ég suður með honum.

Ég var lengi frá kennslu og var lúpulegur þegar ég fór til Þorvaldar bæjarstjóra til að ræða hvernig ég ætti að borga það til baka. Hann sagði við mig: „Vertu ekkert að spá í það, við erum búnir að sjá hvernig þú vinnur.“ Þannig hugsaði ég lengi, þessi bær er búinn að gera ýmislegt fyrir mig og því er ég til í að gera ýmislegt fyrir hann.“

Hann segir að yngri Seyðfirðingar séu að verða jákvæðari í garð heimabæjarins. „Þegar ég var nýfluttur heyrði ég unglingana tala um að þá langaði að flytja til Reykjavíkur. Ég spurði hvað þeir ætluðu að gera og fékk svör um bíó og fleira sem landsbyggðarfólk klárar á 1-2 dögum.

Þessir krakkar vilja koma austur í vinnu en því miður er ekki alveg kominn sá grundvöllur að þeir finni hana hér. Maður sér samt á Facebook að þeir hlakka til að komast heim. Ég held að LungA og fleira hafi hjálpað til við að laga viðmótið.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.