„Ég vil hvergi annars staðar vera“

„Starfið leggst mjög vel í mig og ég er spennt fyrir komandi vikum og mánuðum. Vinna með flóttafólki getur verið erfið og flókin en á sama tíma mjög gefandi,“ segir Rakel Kemp Guðnadóttir, verkefnastjóri vegna fyrirhugaðrar komu flóttamanna í Fjarðabyggð. Rakel er í yfirheyrslu vikunnar.


„Sem verkefnastjóri ber ég ábyrgð á að samhæfa aðstoð og þjónustu við flóttamannahópinn sem er væntanlegur til okkar. Til dæmis er ég núna að skipuleggja fyrstu dagana og vikurnar eftir að fólkið lendir í Fjarðabyggð í samstarfi við lykilstofnanir í sveitarfélaginu.

Ég lít svo á að flóttafólk sé mannauður. Ég hef alltaf hrifist af margbreytileikanum og hef gaman af því að kynnast fólki með ólíkan bakgrunn. Við erum lánsöm að fá tækifæri til að bjóða flóttafólk velkomið til okkar.

Fjarðabyggð hefur mikla og góða reynslu af móttöku flóttafólks og er vel í stakk búið til að taka á móti fjölskyldum á flótta. Vegna þessa er ánægjulegt að bæjarstjórn hafi lýst vilja til samstarfs í svona verkefni á sínum tíma.“

Fullt nafn: Rakel Kemp Guðnadóttir.

Aldur: 31 árs.

Starf: Verkefnastjóri í móttöku flóttamanna til Fjarðabyggðar.

Maki: María Anna Guðmundsdóttir.

Börn: Stefán Þór (6 ára) og Davíð Örn (2 ára).

Ef þú átt óvæntan frídag, hvað gerir þú? Ég sef út, hreyfi mig og á góða stund með fjölskyldunni.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er umhyggjusöm.

Hver er þinn helsti ókostur? Stundum ætla ég mér að gera of margt í einu.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Mamma.

Hvað er í töskunni þinni? Varalitur, próteinstykki, átta pennar, dagbók sótthreinsigel og heyrnatól.

Fallegasti staður sem þú hefur komið á? Austfirðir eins og þeir leggja sig. Það er nánast sama hvar þú þú ert; Oddskarð, Hallormstaðarskógur, Vöðlavík, Hádegisfjall, Berufjörður. Fegurðin er allsráðandi.

Rauðvín eða hvítvín? Hvítvín.

Hvaða kosti í fari fólks kanntu best að meta? Dugnað, humor, hreinskilni.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Ótæpilegt magn af sýrðum rjóma, Nocco og hleðsla.

Af hverju býrð þú á Austurlandi? Ég get þakkað konunni minni það en hún lét plata sig í árs afleysingu hér. Síðan eru liðin tæp sex ár og ég vil hvergi annars staðar vera.

Hvað eldar þú oft í viku? Of sjaldan nú orðið.

Hvernig líta kósífötin þín út? Náttbuxur, hlýrabolur, hlýir sokkar og þykk peysa.

Hvað bræðir þig? Að fylgjast með drengjunum mínum verða perluvinir.

Settir þú þér áramótarheit? Já, kaupa fasteign. Er einmitt að leita mér að húsi, ef þið eruð með hús á sölu, endilega hafið samband.

Topp þrjú á þínum „Bucket list“?: Að fara með fjölskylduna erlendis í skíðaferð. Að fara á tónleika með Ásgeiri Trausta. Að sjá meira af Íslandi.

Duldir hæfileikar? Þeir eru allir upp á borðum.

Mesta afrek? Að vera trú sjálfri mér.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Ég myndi vilja jafna stöðu allra óháð kynþætti, kynhneigð, trú, lífsskoðun og fötlun.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.