„Ég hvet foreldra til að liggja í leti og lesa“

„Ég vona svo sannarlega að þetta verkefni hafi áhrif,“ segir rithöfundurinn Gunnar Helgason sem hefur í vikunni ferðast um Austurlands, lesið úr verkum sínum fyrir grunnskólabörn og fjallað um mikilvægi lesturs.


Verkefnið er á vegum Menntamálastofnunar og SÍUNG, Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda. Í fréttatilkynningu segir að markmiðið með framtakinu sé að hafa áhrif á lestrarvenjur barna og vekja áhuga þeirra á bókum og bóklestri með skemmtilegum hætti.

„Þetta er áróðursherferð, sem miðar að því að fá krakka til að fá enn meiri áhuga á bókum og lestri. Það eru allir að tala um það að íslensk börn lesi ekki nóg, en við það að fara í svona heimsóknir hef ég það nú á tilfinningunni að það lesi bara heilan helling og þetta sé ekki eins mikið vandamál og fólk vill vera láta af. Það eru nánast allir krakkar sem ég hitti búin að lesa eitthvað, en hættan er sú að þau fari frá bókinni þegar þau koma upp í unglingadeild.“

„Mér finnst í alvöru að krakkarnir hafi áhuga á lestri, þegar allir krakkar vita hvað maður hefur skrifað þá þýðir það að þau vita hvaða bækur eru í gangi. Ég ég er alls ekki bara að einblína á mínar bækur heldur bendi ég þeim á að það eru til skrilljón góðar unglingabækur eftir íslenska höfunda.“

„Eru þetta ekki alltaf foreldravandamál?“
Eru foreldrar nógu góðar fyrirmyndir? „Það er nú það, eru til unglingavandamál? Eru þetta ekki alltaf foreldravandamál? Þetta er bara sama gamla spurningin sem ég reyndar held að sé stór hluti vandans. Ef það er einhver lestrarvandi þá er það í grunninn vegna þess að foreldrar liggja aldrei upp í sófa í leti og lesa og það vantar. Ég hvet foreldra til að liggja í leti og lesa, en ekki bara í símanum sínum.“

Austurland er einfaldlega best
Ferðalag Gunnars er aðeins um Austurland. „Það var ekki til peningur til að fara um allt land og ég fékk að velja mér landsvæði og auðvitað valdi ég Austurland, einfaldlega af því að það er best. Það er lengst í burtu, maður á sjaldan leið, en við Felix vorum á Neistaflugi í sautján ár þannig að það er einhver ægilega þægileg heimilistilfinning sem kemur yfir mig þegar ég kem hingað, mér finnst þetta alveg geggjað.“

Austurland í næstu bókum?
Fyrst að Austurland er eftirlætislandsvæði Gunnars, styttist þá ekki í að það eignist hlutdeild í bók eftir hann? „Þetta er mjög góð spurning og eina svarið við því er; „Jú auðvitað“. Ég verð að fara að huga að þessu. Næsta bók er nánast tilbúin, en ef það kemur einhver nýr karakter, þá verður hann að austan, það er klárt mál.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.