„Ég hef kosið að drekka ekki áfengi eða djamma“

Eins og greint var frá á Austurfrétt í vikunni varð Daði Þór Jóhannsson úr Leikni Fáskrúðsfirði Íslandsmeistari í þrístökki pilta og stefnir á það háleita markmið að ná árangri hins sigursæla Vilhjálms Einarssonar. Daði Þór er í yfirheyrslu vikunnar.


Daði segist hafa verið hlaupandi og hoppandi um allt frá því hann man eftir sér. Hann segir einnig að stuðningur foreldra skipti höfuðmáli.

„Ég hef einnig haft mikið keppnisskap síðan ég fór að muna eftir mér. Mamma og pabbi hafa alltaf stutt við bakið á mér og ég væri ekkert án þeirra stuðnings. En mín skoðun er samt sú að það má ekki bara hrósa fyrir hvað sem er, ekki bara segja einstaklingi að hann sé góður í einhverju sem hann er kannski ekki, heldur að fylgjast með og sjá í hverju viðkomandi er í alvöru góð og hvetja þá áfram í því.“

Daði segir að íþróttaiðkunin sjálf sé ekki allt. „Það að æfa íþróttir er bara 1/3 af því að verða íþróttamaður, svefn er 1/3 og mataræðið er 1/3. Það er bara þannig. Hvernig verður maður ef maður borðar bara nammi? Þá er ekki líklegt að maður komist langt. Eða ef meður sefur bara tvo tíma á nóttu, þá nær líkaminn ekki að byggja sig upp eða jafnvel bara að hvílast. Ég hef kosið að drekka ekki áfengi eða djamma, heldur einbeita mér frekar að íþróttunum og finnst mér sú ákvörðun hafa hjálpað mér helling í að verða einbeittari á íþróttirnar og lifi heilbrigðari lífstíl."

Fullt nafn: Daði Þór Jóhannsson.

Aldur: 17 að verða 18.

Starf/skóli: Olís/Verkmentaskóli Austurlands.

Maki: Aníta Guðrún Finnsdóttir.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Fimmtudagar eru góðir vegna þess að þá er alltaf eða oftast eitthvað gott að borða á heimavistinni.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Kurt Cobain eða Chris Cornell.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Góðmennsku og að manneskjan sé hógvær.

Hvað skiptir mig mestu máli? Að gera alltaf mitt besta sama hvað kemur uppá, reyna vera bjartsýnn og góður við alla.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítill? Það var annað hvort gröfukall eða slökkvuliðsmaður.

Hvað stefnir þú á að starfa við í framtíðinni? Eimitt núna er stefnan á vélstjóra eða sambærilegt starf en maður veit aldrei hvort að maður breyti.

Hver er þinn helsti kostur? Ég get talað við hvern sem er hvenær sem er um hvað sem er, eða mér finnst það kostur þótt að öðrum finnist kannski annað.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég kann ekki að hætta. Ef ég byrja á einhverju þá reyni ég alltaf að klára það.

Uppskrift af góðum laugardegi fyrir þig? Á sumrinn er það að vakna svona í kringum 10 og fá mér morgunmat, fara svo að gera eitthvað úti þangað til ég er orðinn svangur og fara heim fá mér að borða. Fara svo aftur út og gera eitthvað til kvöldmats og vera þá bara heima og spila tónlist og svo bara að fara sofa einhvern tímann.

Hvað æfir þú oft/margar klukkustundir í viku? Það er mjög mismunandi fer allt eftir því hvort það sé mikið að læra eða hvort ég hafi tíma eftir skóla en ég reyni að æfa minnst klukkutíma á dag.

Hver eru þín helstu áhugamál? Það er meðal annars frjálsaríþróttir, spila á allskonar hljóðfæri, hlusta á tónlist, hjóla og laga hjól, flest sem er með vél og útivist.

Hvernig er tónlistarsmekkurinn þinn? Hann er mjög fjölbreyttur, en er samt ekki mikið fyrir íslenska rappið, eða nýjustu pop tónlstina. En annars er það allt frá Meshuggah til Fleetwood Mac. En upáhalds tónlistamenn/hljómsveitir eru Chris Cornell, Dave Grohl, Metallica, Dio, Jet Black Joe, Black Sabbath og Royal Blood. En það er svo miklu fleira sem ég hlusta á eins og jazz eða funk eða næstum hvað sem er.

Settir þú þér áramótaheit? Nei ég reyni bara að bæta það sem þarf að bæta jafnóðum.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Dave Grohl söngvari Foo Fighters og Flea Bassa leikari fyrir Red Hot Chili Peppers og Páll Rósinkranz þegar hann var í Jet Black Joe – eða þetta eru allavegana fyrirmyndirnar í seinni tíð.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Það er svo margt sem ég væri til í að breyta en örugglega það sem er efst í huga er hjálpa fólki sem á við mikla andlega erfiðleika að stríða. Það er klárlega eitthvað sem þarf að gera betur hérna á Íslandi.

Topp þrjú á þínum „Bucket list?“ Semja heila plötu þar sem ég syng og spila á öll hljóðfærin. Ferðast um heiminn. Fara á tónleika hjá Slayer.

Ertu nammigrís? ég myndi nú ekki segja að ég væri svakalegur nammigrís. En hver segir nei við smá nammi?

Tæknibúnaður? Ég á Playstasion 2 og 3, Lenovo Yoga 500 og Samsung Galaxy S6 Edge Bose quiet comfor 35 II heyrnatól og audio technica. Svo á ég trommusett, bassa og magnara og alskonar rafmagns græjur.

Besta bíómynd allra tíma? Ég verð að segja að það sé Shawshank Redemption eða Forrest Gump.

Duldir hæfileikar? Ég get klifrað upp kaðal í íþróttahúsi á hvolfi.

Mesta afrek? Allavegana eitt af því er að ég hef orðið íslandsmeistari nokrum sinnum í frjálsumíþróttum.

Ráð til ungs og upprennandi íþróttafólks? Það er bara að halda áfram og ekki hætta sama hversu erfitt þetta verður, þá er alltaf endir á erfiðu tímunum og þá verður alltaf gaman.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.