Orkumálinn 2024

„Ég get nú ekki sagt að ég sé ósigrandi“

„Að þessu sinni náði ég að fara í gegnum mótið án þess að tapa viðureign,“ segir Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, glímukappi frá Reyðarfirði, sem sigraði bikarglímu Íslands síðastliðinn föstudag.


Bikarglíman er fjölmennasta fullorðinsmót ársins þar sem allt okkar fremsta glímufólk mætist, auk erlendra keppenda. Í ár voru 26 keppendur skráðir til leiks og þar af voru tíu erlendir iðkendur, frá Skotlandi, Frakklandi, Danmörku og Svíþjóð.

Ásmundur Hálfdán keppti bæði í +90 kílóa flokki karla þar sem voru fjórir keppendur og í opnum flokki karla þar sem sjö keppendur voru skráðir og keppt var með útsláttarfyrirkomulagi. Ásmundur vann báða flokkana og er þetta þriðja árið í röð sem hann gerir það.

„Ég get nú ekki sagt að ég sé ósigrandi, það eru tveir strákar sem veita mér mikla samkeppni, þeir Sigurður Óli Rúnarsson og Einar Eyþórsson. Ég hef náð að halda góðri einbeitingu undanfarið og ekki gert nein mistök og það hefur skilað sér í sigri, en ég hef ekki neitt svigrúm til að gera mistök þá verður mér strax refsað af þeim,“ segir Ásmundur.

Keppt verður um Grettisbeltið í lok mars en Ásmundur er núverandi Grettisbeltishafi. „Ég stefni á að mæta og verja titilinn. Það verður ekki auðvelt en á mótinu geta ein mistök kostað þig titilinn.“

Kærustuparið „glímufólk ársins 2017“
Ásmundur Hálfdán og kærasta hans Laufey Davíðsdóttir í HSK voru kosin „glímufólk árins 2017“ af Glímusambandi Íslands í byrjun janúar.

„Það að vera kosinn glímumaður ársins 2017 var ánægjulegt en það er vissulega bara staðfesting á hversu vel maður stendur sig á keppnisvellinum ár hvert. Marín tók ekki þátt í Bikarglímunni að þessu sinni, en hún er að ná sér eftir speglun á hné, svo hún var á hliðarlínunni í þetta skipti.“

Aðspurður hvernig það sé að þau séu bæði svo framarlega í sinni íþrótt á landsvísu segir Ásmundur; „Það er bæði kostur og ókostur að stunda sömu íþrótt, við getum undirbúið okkur saman fyrir mót og æft saman. Það er gaman þegar báðum gengur vel en það getur verið skrítin stemmning þegar annað okkar vinnur og hinn tapar. En á heildina litið er það hið besta mál.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.