„Ég fékk ekki svigrúm til þess að forðast sjálfa mig“

„Það var mikið áfall þegar ég frétti að þeim hefði verið ráðið frá því að taka mig inn, ég væri hreinlega of veik og ekki viðbjargandi,“ segir Jenný Margrét Villydóttir Henriksen um þátttöku sína og góðan árangur í svokölluðum Gæfusporum.



Reyðfirðingurinn Jenný Margrét starfar sem verslunarstjóri hjá Te & Kaffi á Akureyri. Ekki eru mörg ár síðan Jenný var óvinnufær öryrki vegna mikils þunglyndis og kvíða sem á rætur sínar að rekja til alvarlegs kynferðisofbeldis sem hún varð fyrir í æsku.

Jenný sagði frá reynslu sinni á málþingi á vegum Geðhjálpar fyrir stuttu. „Ég var beðin um að halda erindi um það hvernig ég vann mig út úr þessu, eða kannski er það ekki réttnefni þar sem maður kemst held ég aldrei alveg út úr svona löguðu, heldur kannski hvernig ég fann leið til þess að létta mér lífið,“ sagði Jenný í samtali við Austurfrétt.


Fór í gegnum Gæfusporin af miklum mótþróa

Gæfusporin er tilraunaverkefni sem Sigrún Sigurðardóttir stóð fyrir í tengslum við Starfsendurhæfingu Norðurlands.

Jenný segir að Gæfusporin hafi verið langt og strangt ferli. „Þetta voru um þrír til fjórir mánuðir, fimm daga vikunnar. Hópurinn vann saman á morgnana en eftir hádegi var meira einstaklingsmiðað starf. Verkefnið er að norskri fyrirmynd og var blanda af hefðbundnum og óhefðbundnum aðferðum, sálfræði- og félagsráðgjafaviðtöl en svo einnig djúpslökun, höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun, jóga, líkamsstöður og fleira.

Þetta var alger snilld, þrátt fyrir að ég hafi farið í gegnum prógrammið af miklum mótþróa, en í fyrsta lagi lagði ég varla í þetta þar sem ég sá strax að þetta yrði mjög erfitt og mikil vinna innávið sem svo varð svo sannarlega raunin,“ segir Jenný.


„Fólk bíður eftir að einhver annar komi og lagi það“

Eins og segir í erindi Jennýar var hún búin að reyna flestar leiðir til bata án árangurs og svartnættið var oft á tíðum mikið. Eftir að hún lauk við Gæfusporin fór leiðin hins vegar að liggja upp á við.

„Ég hef oft spurt mig þeirrar spurningar hvað það hafi verið við Gæfusporin sem náði mér upp. Þetta var svo markvisst og „massívt“ starf, ekki bara eitthvað einu sinni í viku og fékk ég því hreinlega ekki svigrúm til þess að forðast sjálfa mig eða leggja þetta á hilluna milli tíma, heldur þurfi ég að gera svo vel að horfast í augu við þetta og ekki skauta framhjá öllu saman.

Það getur vel verið að búið hafi verið að rétta mér öll þessi verkfæri áður en ég ekki verið tilbúin, en þarna uppgötvaði ég að þetta væri allt saman í mínum höndum. Ég hef sjálf legið á geðdeild og kynnst mörgum og gegnumgangandi er það þannig að fólk bíður eftir að einhver komi og lagi það – allt er ómögulegt, lyfin, læknarnir, fólkið í kring.

Að mínu mati liggur lausnin ekki þar, heldur verðum við að taka ábyrgð á okkur sjálfum. Þetta var mér virkilega erfiður sannleikur að heyra að þetta væri allt í mínum höndum, ekki annarra. Ég veit að mörgum þykir ekki gaman að heyra þetta, en svona er það nú samt – við erum alltaf í endalausri leit að hamingjunni sem er svo bara inn í okkur sjálfum.“



„Þú veist ekkert hvað þú getur nema þú reynir“

Eftir að Gæfusporunum lauk hélt Jenný áfram sambandi við Starfsendurhæfinguna og Virk auk þess sem hún nýtti sér úrræðið „Atvinna með stuðningi“ og fór fyrir tilstuðlan þess að vinna á safni.

„Ég var hjá sjúkraþjálfara á þessum tíma og sá auglýst 50% starf kaffibarþjóns á Te & Kaffi þar sem ég var fastagestur. Mig langaði að sækja um en var eitthvað rög. Sjúkraþjálfarinn hvatti mig og sagði; „Þú veist ekkert hvað þú getur nema þú reynir,“ – ég sóttu um og fékk vinnuna,“ segir Jenný sem í dag er orðin verslunarstjóri eins og fyrr sagði.

„Ég á alveg mína slæmu daga, en þeir eru orðnir miklu færri og ég þarf að minna mig á að það er í lagi, allir eiga sína slæmu daga. Ég er einnig hætt á öllum lyfjum, þótt ég eigi alltaf kvíðastillandi til að grípa til ef á þyrfti að halda.

Þegar ég hugsa til baka finnst mér stundum bara með ólíkindum að ég hafi gengið í gegnum þetta allt saman. Ég fór úr því að vera alvarlega veikur öryrki yfir í það að vera nýtur þjóðfélagsþegn og verslunarstjóri, en það er alger sigur og ekki eitthvað sem ég hefði látið hvarfla að mér á mínum verstu dögum.“


Andleg vinna er aldrei búin

Jenný segir að það megi þó ekki gleyma því að andleg vinna er aldrei búin. „Það kemur bara í bakið á manni ef maður sofnar á verðinum. Ég nýti mér HAM (Hugræna atferlismeðferð) og „mindfullness“ og reyni með því að vera í tengingu við sjálfa mig, en það er eitthvað sem þolendur kynferðisofbeldis eiga mjög erfitt með. Mjög algengt er að þolendur kynferðisofbeldis, eða ofbeldis yfir höfuð, flýji sjálfa sig og eru snillingar í að „hverfa út úr líkamanum“ og eru engan vegin til staðar. Líkaminn er, en hugur er langt í burtu. Það er æfing að vera til staðar í líkamanum og leyfa sér að finna bæði gleði og sorg og allar aðrar tilfinningar sem tilheyra manneskjunni og lífinu,“ segir Jenný.

Aðspurð að því hvort hún geti gefið einhver ráð til þeirra sem glíma við svipaðan vanda segir Jenný; „Ég held að það sé algengasta vandamálið að einstaklingunum finnist að þeir séu ekki nógu mikils virði til þess að leita sér aðstoðar, að allir aðrir eigi rétt á því en ekki ég. Ég vil því hvetja alla til þess að leita aðstoðar því allir eiga það skilið og eru þess virði. Það gæti margborgað sig.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.