„Ég er mjög sáttur með útkomuna“

Guðmundur Rafnkell Gíslason á Norðfirði var að senda frá sér sína aðra sólóplötu á dögunum, en hún ber nafnið Þúsund ár. Að austan á N4 leit við á útgáfutónleikum hans. 


Guðmundur segir tilurð plötunnar Þúsund ár vera þá að hljómsveitarmeðlimir Coney Island Babies, sem er starfandi sveit í Neskaupstað, höfðu samband við hann fyrir rétt rúmu ári síðan og spurðu hvort hann ætti ekki fullt af tónlist og hvort hann hefði áhuga á að æfa með þeim, sem og hann gerði.


„Þá var ekkert í umræðunni að gefa út plötu en svo bara þróaðist það, svo samdi ég ný lög á tímabilinu, þannig að helmingurinn er lög sem ég átti en restin ný.“
Aðspurður um hvort einhver rauður þráður einkenni textagerðina segir Guðmundur; „Já, það er svolítið mikið „dagurinn í dag“ – að við eigum að njóta hans, en að sjálfsögðu margt annað, en það er í það minnsta megin stefið myndi ég segja. Yfirleitt verða lögin og textarnir til nokkuð samhliða – ég sest niður með gítarinn og byrja að spila og syngja og úr verður lag og texti. Hugmyndirnar koma yfirleitt til mín úr nærumhverfinu, kannski atburðir sem henda vinafólk mitt eða mig sjálfan sem verða hugmyndir að texta, sem ég breyti þó yfirleitt til þess að þeir verði ekki of persónulegir.

Sólóplata á tíu ára fresti?
Tíu ár eru síðan Guðmundur gaf út fyrri sólóplötu sína, Íslensk tónlist. „Þegar ég gaf hana út var ég spurður að því hvort ég ætlaði að gera aðra fljótlega, en það er svona svipað og að spyrja konu á fæðingardeildinni hvort hún ætli að eignast annað barn, en það er líka heilmikið mál að gefa út plötu. En ég svaraði því þó til að ég yrði sannarlega að gefa út aðra plötu til þess að fólk tæki mark á mér, það eru allt of margir tónlistarmenn sem gera bara eina sólóplötu og svo aldrei meir.“

Ólýsanleg tilfinning
Guðmundur segir það einstaka tilfinningu að fá plötuna loks í hendurnar við útgáfu. „Það er frábær tilfinning að setjast niður í stofunni og setja plötu á fóninn, það er eiginlega alveg ólýsanlegt. Ég er mjög sáttur með útkomuna þó ég segi sjálfur frá, þó svo ég gefi aldrei út fleiri plötur þá verð ég rosalega ánægður með að hafa gert þessa.“

Ljósmynd: Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.