Orkumálinn 2024

„Ég er með stútfullan koll af hugmyndum“

María Lena Heiðarsdóttir Olsen, einkaþjálfari á Egilsstöðum, hannar og framleiðir sína eigin íþróttafatalínu undir nafninu M-fitness Sport. Að austan á N4 heimsótti hana fyrir jól. 


„Íþróttir áttu hug minn allan þegar ég var lítil og ég hef verið mikið í íþróttum frá því ég man eftir mér. Ég keppti svo á mínu fyrsta fitnessmóti árið 2011 og ætli þetta hafi ekki byrjað almennilega þá,“ segir María Lena, þegar hún er spurð hvernig íþróttafataævintýrið hófst.

Eftir stúdentsprófið segist María Lena ekki hafa vitað hvað hún vildi leggja fyrir sig, nema það eitt að hún vildi hjálpa fólki. „Ég hafði mikinn áhuga á íþróttum og einnig ríka sköpunarþörf. Fólk fór að leita til mín í þjálfun árið 2013 en þá var ég ekki með nein réttindi, aðeins áhugann,“ segir María Lena, sem ákvað að fara í einkaþjálfaranám og stofnaði í kjölfarið M-fitness.

Fannst vanta öðruvísi og smart íþróttaföt
„Ég er uppalin í tísku, en mamma á tískufataverslun, og sem stelpa fékk ég að fara með í ferðir erlendis til að versla inn fyrir búðina en þar kannski kviknaði hönnunaráhuginn fyrir alvöru. Ég var sjálf alltaf bara í íþróttagallanum og langaði að búa til eitthvað töff sem mér fannst oft vanta – öðruvísi en samt smart íþróttaföt. Auðvitað var þetta stórt markmið og fólk trúði ekki að mér myndi takast þetta, nema ég sjálf, sem hafði alltaf trú á að ég gæti þetta,“ segir María Lena, sem lét ekki þar við sitja og fór af stað.

María Lena segir að vendipunkturinn hafi verið þegar hún átti son sinn fyrir tveimur árum og hún lét til skarar skríða. „Ég var orðin mamma, ekki með háskólagráðu og ég sagði við sjálfa mig að nú yrði ég að gera eitthvað, elta draumana mína, síðast en ekki síst til þess að sýna honum að það er allt hægt ef maður nennir að vinna fyrir hlutunum.“

María Lena lagðist í mikla leit að samstarfsaðilum erlendis. „Ég er með stútfullan koll af hugmyndum. Um leið og ég fæ einhverja hugmynd þá passa ég mig á því að skrifa hana strax niður og flestar koma þær á kvöldin þegar ég er komin upp í rúm og þá stekk ég fram og skrifa hana niður til þess ég geti haldið áfram að vinna með hana daginn eftir. Auðvitað hefur þetta verið þróunarferli og ég hef hannað fullt af vörum sem ég er ekki sátt með og fara ekki í framleiðslu.“

Ég hef mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig íþróttabuxur eiga að vera og henti öllum konum – ég vil hafa þær háar í mittið og með góðu haldi, þannig að þær nái yfir magann og renni ekki niður. Einnig að það sjáist ekki í gegnum þær þegar maður beygir sig,“ segir María Lena, en að sjálfsögðu kemur ný lína frá henni í ár. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.