Drusluganga á Borgarfirði: Viljum ekki að hugsanlegir þolendur ofbeldis upplifi að hér ríki þöggun

Drusluganga verður gengin í annað sinn á Borgarfirði á laugardag. Forsvarsmenn göngunnar segja mikilvægt að baráttan gegn kynferðisofbeldi fari fram um allt land.


Rebekka Karlsdóttir og Dagur Skírnir Óðinsson eru meðal þeirra sem koma að undirbúningi göngunnar í ár en hún er gengin undir merkjum Ungmennafélags Borgarfjarðar.

„Hugmyndin kviknaði bara á síðustu stundu í fyrra. Þá var ekki tími fyrir mikla skipulagningu heldur redduðum við þessu bara.

Við vorum að ræða hversu svekkjandi það væri að geta ekki tekið þátt í Druslugöngunni fyrir sunnann og ákváðum að henda bara í eina göngu hér á Borgarfirði það heppnaðist vel og þess vegna endurtökum við leikinn í ár."

Druslugangan hefur verið haldin í Reykjavík að erlendri fyrirmynd síðastliðin sex ár. Markmið göngunnar er að samfélagið rísi upp gegn kynferðisofbeldi og færi ábyrgð á kynferðisglæpum frá þolendum yfir á gerendur.

„Ég sá að Dagur var að tala um þetta á Twitter og ákvað að slást í hópinn. Það er svo auðvelt að láta eitthvað svona framhjá sér fara þegar maður er útá landi og mig langaði að vera með í að vekja athygli á þessu málefni,“ segir Rebekka.

„Boðskapur göngunnar á líka þeim mun meira erindi hér þessa helgi, á einni stærstu útihátíð á Austurlandi,“ segir Dagur en tónlistarhátíðin Bræðslan er haldin á Borgarfirði um helgina.

„Það er mikilvægt að koma þessum boðskap áleiðis hér, að fávitaskapur verði ekki liðin,“ segir Dagur og Rebekka tekur undir með honum: „Við viljum ekki að hugsanlegir þolendur ofbeldis upplifi að hér ríki þöggun.“

Gangan verður farin á laugardaginn frá kirkjunni á Borgarfirði að fótboltavellinum. Farið verður af stað klukkan 13:00 en Rebekka og Dagur hvetja þátttakendur til að mæta tímanlega. Þau hafa verið í samskiptum við skipuleggjendur Druslugöngunnar í Reykjavík og munu hafa Drusluvarning til sölu fyrir gönguna.

„Við deilum út upplýsingum á Facebook. Það á eitt og annað eftir að koma í ljós, við lofum einhverjum uppákomum í göngunni og munum tilkynna um sölutilhögun á varningnum. Það er enginn hraðbanki hérna þannig að við hvetjum fólk til að koma með kass,” segir Dagur. „Svo hvetjum við fólk líka til að mæta að sjálfsögðu“ segir Rebekka að lokum og brosir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.