Brönsinn er vinsælasta fermingarveisluformið

„Brönsinn hentar afskaplega vel, sérstaklega þegar fermt er klukkan ellefu en þá kemur fólk til okkar eftir athöfn og borðar hádegismat í seinna fallinu,“ segir Auður Anna Ingólfsdóttir, hótelstjóri, um veitingar í fermingarveislunni.



Nú líður að fermingum og fermingarveislan er stór hluti fermingardagsins og ráðgáta sem aðstandendur standa frammi fyrir þegar stóri dagurinn nálgast.

Auður Anna hefur starfað í hótel- og veitingageiranum í tæp fjörutíu ár og sinnt starfi hótelstjóra síðastliðin átján ár. Hún segir „brönsinn“ vera vinsælasta fermingarveisluformið í dag, í það minnsta á Hótel Héraði.

„Veislurnar hafa breyst, rétt eins og samfélagið. Þær eru orðnar mun stærri og dýrari, sem og fermingargjafirnar. Hér áður fyrr voru veislurnar haldnar heima og allur matur útbúinn á heimilinu. Síðan var farið að panta mat til þess að létta álagið en veislurnar enn haldnar heima en fyrstu árin mín hér afgreiddum við mikið magn af mat „út úr húsi“ eins og við kölluðum það. Þetta hefur svo mikið þróast í þá átt að veislurnar séu haldnar á hótelum eða veitingastöðum og hjá okkur er til dæmis allt upppantað fyrir löngu og miklu færri komast að en vilja,“ segir Auður Anna.

Anna Auður segir að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi þegar um „bröns“ er að ræða en hann samanstendur af forréttum, aðalréttum og eftirréttum.

„Fermingarbörnunum þykir þetta mjög spennandi kostur en aðkoma þeirra að veislunni sjálfri hefur gerbreyst gegnum tíðina og nú hafa þau miklar skoðanir á því upp á hvað þau vilja helst bjóða.“

Auður Anna segir að flestir gangi inn í hefðbundinn „bröns“ en þó eftir sínu höfði. „Það er misjafnt hvernig súpu er óskað eftir, hvort það eigi að vera kjúklingur eða annað kjöt í aðalrétt og svo til dæmis hvort það er súkkulaðibrunnur eða marengsterta á eftirréttaborðinu. Sumir vilja sushi meðan aðrir vilja ekki sjá það og telja það varla mat. Við reynum að koma til móts við óskir okkar viðskiptavina.“


Farið að huga meira að heilsunni

Sá hópur stækkar sífellt sem kýs til dæmis glúteinlaust fæði eða er „vegan“. Auður Anna segir þetta góðan kost fyrir slíkt. „Brönsinn er einmitt tilvalinn þar sem valið er svo mikið, allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Við sjáum líka að fólk er farið að huga meira að heilsunni en áður, meira að segja á dögum sem þessum. Gosdrykkja virðist á undanhaldi og almenn meðvitund er að aukast um hollari mat.“


Merktar servíettur barn síns tíma

Auður Anna segir fermingardaginn alltaf jafn spennandi og hátíðlegan. „Börnin eru yfirleitt stjörf af spenningi og fullorðnast heilmikið þennan dag. Ég er þó alltaf jafn undrandi á einni hefð sem haldist hefur til dagsins í dag, það er að enn sé verið að prenta nafn fermingarbarnsins á servíetturnar. Mér finnst alltaf jafn óspennandi þegar gestir þurrka sér um munninn með nafni barnsins. Það var auðvitað rík hefð fyrir því hér áður fyrr að safna servíettum og gestir tóku þá merkta servíettu með sér heim. Það er auðvitað skemmtilegt að eiga eitthvað til minningar um þennan dag en mér finnst þetta orðið barn síns tíma og væri gaman að finna eitthvað nýtt, í takt við tímann.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.