Orkumálinn 2024

Bjuggu til hina fullkomu dagbók

„Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á dagbókum og verið í stöðugri leit að hinni fullkomnu dagbók,“ segir Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og annar höfundur dagbókarinnar MUNUM. Erla er í yfirheyrslu vikunnar.



Er þetta annað árið í röð sem Norðfirðingurinn Erla Björnsdóttir og vinkona hennar Þóra Hrund Guðbrandsdóttir gefa út dagbækur fyrir nýtt ár undir nafninu MUNUM.

Erla er sálfræðingur hjá Sálfræðiráðgjöfinni þar sem hún hjálpar fólki sem á við svefnvanda að etja, kvíða, depurð eða önnur tilfinningaleg vandamál. Einnig starfar hún sem sem nýdoktor á Landspítalanum þar sem hún rannsaka svefn og áhrif hans á heilsu. Ásamt því rekur fyrir fyrirtækin betrisvefn.is og MUNUM útgáfu.

„Staðan var orðin þannig að ég var með nokkrar bækur í gangi samtímis, eina fyrir vinnuna, aðra fyrir heimilislífið og svo fyrir markmiðin, æfingarnar, matarræðið o.s.frv. Þetta var orðið svolítið flókið og leitin að fullkomnu dagbókinni var ekki að gera sig. Þóra vinkona mín deildi þessu dagbókarblæti með mér og staðan var svipuð hjá henni, margar bækur í gangi en sú rétta ekki fundin og við ákváðum því bara að búa til dagbók sem hefði allt sem við myndum vilja sjá í hinni fullkomnu bók.“


Gríðarlega góð viðbrögð

Erla segir að bókin fyrir árið 2016 hafi fengið frábær viðbrögð. „Miklu, miklu betri en okkur óraði fyrir og fyrsta upplag seldist upp á örfáum dögum. Við fórum beint í að prenta annað upplag sem seldist svo líka upp á örfáum vikum.

Erla segir það afar skemmtilegt hve notendur séu duglegir við að deila með þeim reynslusögum af bókinni. „Við höfum fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð og erum hrærðar og stoltar yfir þeim. Við höfum birt nokkur vel valin ummæli frá okkar notendum inná heimasíðunni okkar www.munum.is.“


Hönnuð til þess að hámarka árangur

En hvað er öðruvísi við MUNUM dagbókina en aðrar? „Þessi dagbók hefur ýmislegt umfram hina hefðbundnu dagbók. Sem dæmi er fræðsla um markmiðasetningu og í upphafi bókar er markmiðatré þar sem fólk setur sér þrjú yfirmarkmip fyrir árið sem síðan eru bútuð niður og tímasett eftir leiðum sem hámarka líkur á árangri.

Einnig er fólk hvatt til að setja sér markmið fyrir mánuðinn, vikuna og daginn og er sérstakt pláss til að skrifa þau í bókina. Í hverri viku er einnig dálkur þar sem fólk er hvatt til að skrifa niður hvað það er þakklátt fyrir þá vikuna en með þessu móti viljum við stuðla að jákvæðri og þakkláttri hugsun. Einnig er sérstakur dálkur fyrir matseðil dagsins og æfingu dagsins. Bókin er hönnuð með það að leiðarljósi að hámarka tímastjórnun, hvetja til framkvæmda og efla jákvæða hugsun.“


„Þetta líður allt of fljótt“

Ætlar Erla sjálf að setja sér markmið fyrir komandi ár? „Já heldur betur! Ég set mér mikið af markmiðum en á árinu 2017 ætla ég að fókusera á heilbrigðan lífsstíl, gæðastundir með fjölskyldunni og að njóta augnabliksins – það líður alltof fljótt!“


Fullt nafn: Erla Björnsdóttir.

Aldur: 34 ára.

Starf: Sálfræðingur, nýdoktor og frumkvöðull.

Maki: Hálfdan Steinþórsson.

Börn: Steinþór Snær, Björn Dilja, Frosti og Bjartur.


Fegursti staður Íslands? Mjóifjörður.

Hvert er uppáhalds lagið þitt? Your song með Elton John – maðurinn minn tileinkaði mér þetta lag á fyrsta deitinu okkar og hefur það verið í uppáhaldi síðan.

Mesta undur veraldar? Manneskjan.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að geta verið á mörgum stöðum í einu – það er svo margt sem mig langar að gera en þessar blessuðu 24 klukkustundir í sólarhringnum setja manni ákveðin takmörk.

Besta bók sem þú hefur lesið? Karítas án titils.

Hver er þinn helsti kostur? Dugleg.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég er með svokallaða andlitsblindu sem er eins og að vera ómannglögg í öðru veldi – hefur oft komið mér í klandur.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Humar með alltof miklu hvítlaukssmjöri.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Get ekki gert upp á milli – finnst hver árstíð hafa sinn sjarma.

Drauma laugardagur? Vakna snemma og byrja daginn á góðum jógatíma, borða dásemdar bröns með fjölskyldunni, fara öll saman í fjallgöngu og sund, koma heim og grilla dýrindis humar og fá góða vini í heimsókn, skála í kampavíni og hlæja inní nóttina.

Hvað bræðir þig? Börnin mín og maðurinn minn þurfa lítið að gera til að bræða mig.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Dagarnir eru ansi misjanfir hjá mér og því erfitt að tala um týpískan dag. Ég vakna oftast kl 07:00, vek strákana og kem þeim í skólann. Svo tekur vinnan við en verkefnin eru afar fjölbreytt og enginn dagur eins sem mér finnst mikill kostur. Eftir vinnu sæki ég eða maðurinn minn strákana, skreppum í jóga, eldum mat, borðum saman, komum börnum í háttinn og eigum smá smá gæðastund saman þegar ró er komin á heimilið.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Föstudagar eru alltaf skemmtilegir, baka pizzu með fjölskyldunni og slaka aðeins á eftir vikuna. Annars finnst mér allir dagarnir ansi góðir.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ég væri alveg til í einn „happy hour“ með Michelle Obama.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Helgin er ansi pökkuð eins og oft á þessum árstíma. Fertugsafmæli, jólaboð með vinnunni, jólahlaðborð með matarklúbbnum á Jómfrúnni, aðventukaffi og piparkökuhúsagerð með börnunum og fleiri vinum. Svo verður eitthvað reynt að slaka á inn á milli.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Mér finnst mjög erfitt að nefna eina ákveðna fyrirmynd. Það eru ótal einstaklingar sem hafa ákveðna þætti í sínu fari sem ég tek mér til fyrirmyndar, þar á meðal foreldrar mínir, maðurinn minn og fleiri.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Heimsreisa með alla fjölskylduna, eignast búgarð á Ítalíu og gefa út bók sem slær í gegn á heimsvísu.

Duldir hæfileikar? Ég get lesið bók á hvolfi.

Mesta afrek? Börnin mín.

Ertu nammigrís? Ég var svakalegur nammigrís þegar ég var yngri en það hefur að mestu elst af mér. Ég ákvað snemma á þessu ári að taka mest allan sykur úr matarræðinu og ótrúlegt en satt þá fór nammiþörfin nánast alveg við það. Dökkt súkkulaði verður þó alltaf á matseðlinum.

Helstu jólahefðir? Jólin eru ein stór nostalgía og mjög mikið um hefðir á mínu heimili. Jólasokkarnir fyrir ofan arininn, bæjarrölt og kakó á Þorláksmessu, humarsúpan hans Hálfdans, möndlugrauturinn hans pabba, náttfatadagar og svo mætti lengi telja.

Hvað langar þig að fá í jólagjöf? Góð bók er alltaf á óskalistanum.

Hér er Facebooksíða MUNUM þar sem má skoða myndir og videokynningu af bókinni. 

MUNUM1

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.