Barnasamfellur, vínylplötur, sjósund og brúðkaup í beinni

„Markmið sveitarinnar hefur frá upphafi verið að flytja blóðhráa, grimmpólitíska, andfasíska pönktónlist og kveikjan að stofnun sveitarinnar var uppsafnað óþol fyrir pólitískri spillingu og misbeitingu valds á Íslandi,“ segir Jón Knútur Ásmundsson, trommari austfirsku pönkhljómsveitarinnar Austurvígstöðvarnar, en sveitin stefnir í hljóðver á vormánuðum svo boðskapurinn hennar nái eyrum sem flestra. 


Í þessu augnamiði hefur hljómsveitin hrint af stað fyrirfram sölu á afurðinni og ýmsu öðru viðhlítandi á Karolina Fund svo komast megi yfir erfiðasta hjallann.Jón Knútur segir að á plötunni verði ekki færri en þrettán pönk-ópusar eftir Davíð Þór Jónsson, blóðhráir og and-fasískir, upptökustjórnað af Jóni Ólafssyni, margverðlaunuðum tónlistarmanni og pródúsent. „Lögin eru þrælpólitísk og bera heiti eins og Arnþrúður er full, Hvar á sá feiti að vera?, Feminískt helvíti og Þjóðbastarðar. Á Sound Cloud-síðu hljómsveitarinnar má heyra demó af nokkrum lögum en á nýju plötunni verða auk þess ný lög sem ekki hafa heyrt áður," segir Jón Knútur. 


„Virk í athugasemdum“

Austurvígstöðvarnar voru stofnaðar á Reyðarfirði sumarið 2016, en þá voru allir hljómsveitarmeðlimir ýmist búsettir þar eða á Eskifirði. Stofnfélagar voru Davíð Þór Jónsson, söngvari og laga og textasmiður, Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir, bassaleikari og Jón Knútur Ásmundsson, trommari. Smám saman bættust fleiri í hópinn, fyrst Jón Hafliði Sigurjónsson, gítarleikari, þá Þórunn Gréta Sigurðardóttir, hljómborðsleikari og loks Díana Mjöll Sveinsdóttir, söngkona.

„Já, við erum svona „virk í athugasemdum“ í tónlist okkar. Framan af bjuggum við til lög jafn óðum og eitthvað gerðist og ég held að fátt bendi til að við verðum uppiskroppa með yrkisefni í framtíðinni.“ Í stefnuyfirlýsingu Austurvígstöðvanna segir einmitt: „Á meðan félagslegt óréttlæti veður uppi hafa Austurvígstöðvarnar skuldbundið sig til að öskra sannleikann yfir gauðrifna gítara, drynjandi bassatóna og dúndrandi trommuslátt,“ segir Jón Knútur.

Hvers vegna eru þið að gefa út plötu á tímum streymisveitna? „Við höfum einfaldlega trú á þessum lögum, erum stolt af þeim og viljum að þau séu til á fýsísku formi. Við ákváðum að gera þetta almennilega og höfum náð samningum við Jón nokkurn Ólafsson, tónlistarmann og pródúsent, sem ætlar að sjá til þess að þetta verði unnið almennilega, hratt og vel. Og til þess að við náum upp í kostnað þurfum við að geta selt diska. Reyndar ætlum við að selja ýmislegt fleira í tilefni af útgáfunni s.s. barnasamfellur, vínylplötur, pönknælur, sjósund með hljómsveitinni og brúðkaup í beinni. Auðvitað fer þessi mússík á Spotify einhvern tímann þannig að fólk getur hlustað á þetta sér nokkurn veginn að kostnaðarlausu en fyrst þurfum við að ná upp í kostnað. Það kostar einfaldlega svolitla peninga að framleiða tónlist vilji maður standa vel að því og gera hlutina vel. Svo einfalt er það.“

 

Einskonar sumargleði

Hljómsveitin var dugleg við spilamennsku í fyrrasumar og mun halda uppteknum hætti komandi sumar, mun meðal annars spila á Eistnaflugi í Neskauptað og í Havarí á Karlsstöðum í Berufirði.

„Við erum svona sumarhljómsveit, einskonar sumargleði,“ segir Jón. „Við búum ekki lengur öll í sama landshlutanum og helmingur bandsins er duglegur að hlaða niður börnum þannig að við þurfum að skipuleggja tímann vel. Við ætlum að taka upp þessa plötu í vor og svo fylgjum við henni eftir í sumar með nokkrum vel völdum tónleikum fyrir austan og á suðvesturhorninu að minnsta kosti. Vonandi spilum við fyrir vestan og norðan líka en það á eftir að koma í ljós,“ segir Jón Knútur, en hér er má skoða Facebook-síðu sveitarinnar












Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.