Austfirðingur í söngvakeppninni: Öskraði og hræddi barnið þegar ég frétti að við værum komnar áfram

Sigríður Eir Zophoníasardóttir frá Hallormsstað verður fulltrúi Austfirðinga í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár en hún er í hljómsveitinni Evu. Hún segir það hafa verið sérstaka stund þegar hún gerði sér grein fyrir að margra ára draumur hennar um að taka þátt í keppninni væri að rætast.


„Mig hefur dreymt um það síðan ég var þriggja ára skógardís í júróvisiónpartýi á Hallormsstað að taka þátt í keppninni. Fyrst beið ég eftir að einhver hringdi í mig með lag og bæði mig um að syngja. Svo fattaði ég að semja lag sjálf,“ segir Sigríður Eir.

Sigríður Eir skipar dúettinn ásamt vinkonu sinni Völu Höskuldsdóttur. „Það var viku fyrir skilafrest í haust að við Vala vorum að semja og ég skrifaði á verkefnalista dagsins að semja júróvisiónlag. Vala var með einhverjar efasemdir en mér tókst að sannfæra hana með því að lofa að lagið yrði samið í anda Hljómsveitarinnar Evu og hefði stærri og meiri merkingu fyrir samfélagið.

Við settumst niður og spáðum í hvað við vildum segja við Evrópu. Það var og er að við vildum leggja orð í belg um mál flóttamanna og lagið „Ég sé þig“ er hvatning til fólks um að sjá tækifærin í fjölbreytileikanum. Að við horfum ekki í hvaðan við komum eða virðumst vera heldur horfum meira í það sem sameinar okkur.“

Sigríður Eir segir það hafa verið mikla viðurkenningu að frétta að lagið væri komið í íslensku sjónvarpskeppnina. „Ég var ein heima að skipta um bleyju á barninu mínu þegar framkvæmdastjóri keppninnar hringdi. Ég bað hann um að hringja síðar en um leið og ég skellti á hann fattaði ég að hann væri að hringja til að segja mér hvort við hefðum komist áfram.

Ég hef aldrei skipt jafnhratt um bleyju og hringdi til baka. Þegar hann sagði mér að við hefðum komist áfram hoppaði ég um, öskraði og hræddi barnið.

Við fengum að vita að 260 lög hefðu verið send inn og þetta er ekki síður viðurkenning fyrir okkur Völu. Við erum ekki menntaðar í tónlist og aldrei fundist við vera alvörutónlistarkonur. Þess vegna var gaman að komast í gegnum niðurskurðinn.“

Lagið verður í fyrri forkeppninni annað kvöld. Seinna undanúrslitakvöldið er eftir viku. og lokakeppnin í Laugardalshöll eftir tvær vikur. Lokakeppnin sjálf verður svo í Stokkhólmi í maí. Verið er að undirbúa keppnina en fjórir bakraddasöngvarar munu styðja við Sigríði Eir og Völu.

„Það þarf að æfa betur með þeim og velja dressið en lagið er klárt. Við Vala erum líka þannig að við munum alltaf standa á sviðinu og syngja textann út til fólksins. Þá verður allt annað aukaatriði.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.