Austfirðingur í kosningum í Háskólanum: Nýir garðar og lán snerta marga að austan

Einar Bjarni Hermannsson, nemi í iðnaðarverkfræði frá Egilsstöðum, er á lista Vöku í kosningum til stúdentaráðs Háskóla Íslands sem fram fara í dag og á morgun. Hann segir að gaman hafi verið að taka þátt í kosningabaráttunni.


„Baráttan hefur gengið vel og við héldum til dæmis vel heppnað innflutningspartý í kosningamiðstöðina,“ segir Einar Bjarni sem er meðal varamanna framboðs Vöku á verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Hann segir námslánin hafa verið aðalumræðuefnið í ár þar sem meðal annars sé rætt um að hækka eða afnema frítekjumörkin. Eins vanti fleiri stúdentagarða þótt mikið hafi byggst upp af þeim síðustu ár. „Þessi tvö mál eru ofarlega hjá mér þar sem þau snerta marga sem búa fyrir austan.“

Frambjóðendur hafa síðustu daga reynt að komast í snertingu við sem flesta nemendur og mögulega kjósendur. Einar Bjarni viðurkennir hins vegar að takmarkaður áhugi sé á Stúdentaráðskosningunum.

„Það virðist sem fáir viti um þessar kosningar og af hverju við kjósum í Stúdentaráð þannig að um leið og við kynnum stefnumál Vökum segjum við líka nemendum frá því sem Stúdentaráð hefur gert í þágu nemenda.“

Einar Bjarni hóf nám í haust eftir útskrift frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Í gegnum annan Héraðsbúa, Elísabetu Erlendsdóttur sem er formaður stúdentaráðs Háskólans í Reykjavík, komst hann í kynni við Vöku og hefur haft gaman af kosningabaráttunum.

Kosið er rafrænt á innra neti skólans í dag og á morgun. Þrátt fyrir það eru í gildi gamlar reglur um að frambjóðendur megi ekki vera með áróður á kjörstað svo þeir sjást lítið í skólanum.

„Við megum ekki mæta neitt í skólann nema bara í og úr tíma. Svo ég hef afsökun til að vera ekki í hópavinnu þennan dag!!“

Mynd: Håkon Broder Lund

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.